Tillögur vonandi fyrir sumarlok

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

Það er mikilvægt að auka framboð hlutastarfa fyrir fólk með skerta starfsgetu. Þrátt fyrir að skylda stjórnvalda sé sú að tryggja jöfn tækifæri á vinnumarkaði þá er það ekki staðan. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundi Öryrkjabandalags, Allskonar störf fyrir allskonar fólk í dag.

Katrín benti á að mögulega þyrfti að ganga lengra en gert er og grípa til aðgerða til að þetta raungerist svo þetta verði ekki orðin tóm. Mögulega væri hægt að byggja inn einhvers konar hvata, marka stefnu og setja inn tímasetningar til að þetta raungerist.

Starfshópur í stjórnarráðuneytinu hefur unnið að því að kortleggja stöðuna til að auka framboð slíkra starfa. Stefnt er að því að þær verði kynntar á ríkisstjórnarfundi fyrir sumarhlé. Hún bindur vonir við að þær verði komnar í gagnið strax á þessu ári og á því næsta, sagði Katrín.     

Unnið er að því í barnamála- og félagsmálaráðuneyti að tryggja að atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsorki tryggi að atvinnutekjur skili sér til þeirra, sagði Katrín. Samhliða þessum aðgerðum þarf viðhorfsbreytingu í samfélaginu, efla þarf fræðslu og tryggja fötluðu fólki gott aðgengi að góðri menntun. 

„Fólk með skerta starfsorku þarf að geta nýtt hæfileika sína,“ sagði Katrín og vitnaði í tölur sem sýndu að hluti fatlaðs fólks á vinnumarkaði er mun lægra hér á landi en í öðrum löndum. Þessu þyrfti að breyta og til þess þyrfti samhent átak sem margir þættir spiluðu inn  og væri fræðsla til fyrirtækja og viðhorfsbreyting dýrmæt.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert