Tímarit Máls og menningar í vefútgáfu

Síðasta tölublað TMM fjallaði um bókmenntahátíðina í Reykjavík á dögunum.
Síðasta tölublað TMM fjallaði um bókmenntahátíðina í Reykjavík á dögunum.

Með nýjum vef Tímarits Máls og menningar, þessum hér, vilja útgefendur tímaritsins færa það inn í nútímann og um leið vekja meiri athygli á prentútgáfunni sígildu. Brot úr tímaritinu verða birt á nýuppfærðum vef og þar verður að finna alla bókadóma sem birtast í tímaritinu.

Elín Edda Pálsdóttir, annar tveggja ritstjóra TMM, segir í samtali við mbl.is að flæðið á vefsíðunni ætti að vera nokkurt. Áfram verður megináherslan á prentútgáfuna, sem kemur út fjórum sinnum á ári, en á vefnum muni efnið sytra út vikulega.

„Tilgangurinn er að vekja athygli á prentútgáfunni og dreifa efni tímaritsins til stærri hóps lesenda, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla TMM. Og samtímis að hvetja fólk til að gerast áskrifendur að prentútgáfunni,“ segir Elín.

Elín Edda Pálsdóttir er annar tveggja ritstjóra Tímarits Máls og …
Elín Edda Pálsdóttir er annar tveggja ritstjóra Tímarits Máls og menningar. Ljósmynd/Aðsend

Efnið sem verður birt vikulega verði jöfnum höndum úr tímaritinu sjálfu en einnig sé stefnan að birta eldra efni úr fyrri tölublöðum TMM, eins og frá síðustu 10 árum. Allt efni til 2009 er að finna á timarit.is. Elín vill lyfta grettistaki í útgáfu efnisins þar á milli og til nútímans.

Aðspurð segir Elín að þetta framtak þýði ekki að minni metnaður verði lagður í prentútgáfuna, síður en svo. Þetta sé öllu heldur til þess fallið að auka veg hennar. „Við höfum fulla trú á vel völdu efni í prenti, sérstaklega fjölbreyttu efni eins og þessu. Þetta getur höfðað til margra, þetta eru smásögur, ljóð og styttri og lengri greinar um menningarmál,“ segir hún.

Sérstaða TMM segir hún felast í gaumgæfilega ritstýrðri menningarumfjöllun, þar sem valið efni úr öllum menningarkimum sýni brot af því besta úr íslensku menningarlífi. „Almennt finnst mér að gera megi mun betur í menningarumfjöllun á Íslandi,“ segir Elín. „Við ætlum að leggja okkar á vogaskálarnar í þeim efnum,“ segir hún.

Auk þessa verða allir ritdómar Silju Aðalsteinsdóttur síðasta áratug, þ.e. frá 2008, birtir einvörðungu á þessu vefsvæði.

Tímarit Máls og menningar var fyrst gefið út árið 1938 og hefur komið út samfleytt síðan.

mbl.is