Vildu gera 100 aðgerðir í viðbót en fengu aðeins 7

Bið eftir brennsluaðgerðum vegna gáttatifs lengist.
Bið eftir brennsluaðgerðum vegna gáttatifs lengist. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Það er mikil bið í brennsluaðgerðir á hjarta og ákveðið áhyggjuefni hvað sá biðtími er langur,“ segir Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs Landspítala Íslands.

Í nýbirtum tölum Landspítala kemur fram talsverð fjölgun þeirra sem eru á biðlista eftir aðgerð á hjartaþræðingarstofu spítalans. Hinn 10. apríl síðastliðinn höfðu 365 manns beðið eftir aðgerð lengur en þrjá mánuði og hafði þeim fjölgað um 5% miðað við sama tíma í fyrra. Hlutfall sjúklinga sem beðið hefur eftir aðgerð á hjartaþræðingarstofu lengur en í þrjá mánuði hefur aukist úr 65% í 77% milli ára.

Að sögn Hlífar eru gerðar ýmiss konar aðgerðir á hjartaþræðingarstofu; hjartaþræðingar, hjartabrennsluaðgerðir og aðgerðir á hjartalokum svo eitthvað sé nefnt. Lengstu biðlistarnir eru í brennsluaðgerðir.

Greint var frá því á vef heilbrigðisráðuneytisins í byrjun apríl að verja ætti 840 milljónum króna í forgangsaðgerðir í ár. Þar kom fram að framkvæma ætti brennsluaðgerðir vegna gáttatifs fyrir svipaða upphæð og varið var til þræðinga og kransæðavíkkana í samskonar átaki í fyrra. Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki svarað fyrirspurn Morgunblaðsins um það hversu hárri upphæð verði varið í brennsluaðgerðir vegna gáttatifs í umræddu átaki.

Hlíf segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, að óskað hafi verið eftir að bæta við í átaki allt að 100 aðgerðum árið 2019 til að vinna bug á biðlistum en fengist hafi viðbótarfjármagn til að gera sjö aðgerðir umfram það sem gert var á síðasta ári sem dugi skammt til að vinna á þessum vanda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert