Vilja loftslagssetur sem samráðsvettvang

mbl.is/Kristinn Magnússon

Í okkar tilfelli er mikilvægt að allir málaflokkar innan laga um opinber fjármál setji sér stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum, sagði Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands í erindi sínu á ráðstefnu sem Lofts­lags­ráð stend­ur fyr­ir í dag um aðlög­un Íslands að lofts­lags­breyt­ing­um. Sagði Árni mikilvægt að flétta aðlögunina inn í alla þá strúktúra sem þegar séu til staðar í samfélaginu.

„Það er mikilvægt að ná til atvinnulífsins alls,“ sagði hann. Því þurfi að búa til þá umgjörð að það sé gert.

Árni vakti ennfremur máls á því að gott sem öll ríki Vestur-Evrópu, nema Ísland hafi láti gera landsáætlun um aðlögunaraðgerðir vegna loftslagsbreytinga. „Það er mismikill lagalegur grunnur, en sumstaðar er hann  mjög formlegur,“ sagði hann.

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands hefur sett fram …
Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands hefur sett fram tillögur um stofnun sérstaks loftslagssetur hér á landi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, um­hverf­is- og auðlindaráðherra, benti í ávarpi sínu við setningu ráðstefnunnar á að vinna sé nú í gangi við aðlögunaráætlun fyrir Ísland.

Leggja á ráðinu um forgangsröðun og vöktun

Tók Árni dæmi um hvernig stjórnvöld í Sviss og Svíþjóð hagi málum. Í Sviss sé þetta bundið í lög og fari í gegnum þingið, en í Svíþjóð hafi verið farin önnur leið. „Þar hafa allar stofnanir sem þessi mál varða bundist neti sem stýrt er af sænsku veðurstofunni,“ sagði hann. Innan þess nets hittist veðurstofa, forsvarsmenn skógræktar og náttúruverndar og  leggi á ráðin um forgangsröðun og vöktun, auk þess að sjá um að miðla upplýsingum til atvinnulífs og almennings.

„Það er líka mikil áhersla lögð á það í Svíþjóð að loftslagsráðið sé óháð,“ bætti hann við.

Sagði Árni Veðurstofu Íslands hafa sett fram tillögur um stofnun sérstaks loftslagssetur hér á landi sem sinnt gæti svipuðu hlutverk. Slíkt loftslagssetur yrði þá vettvang samráðs við gerð rannsóknaráætlunar um vísindalegar forsendur aðgerðaáætlana um losun og aðlögun, sem og um forgangsröðun verkefna.

mbl.is