Afsagaður riffill, sveðja og veiðihnífur

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Fertugur maður var dæmdur í eins árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í vikunni fyrir vopnalaga og fíkniefnabrot. Maðurinn hefur ítrekað komist í kast við lögin síðustu tuttugu árin. 

Í niðurstöðu dóms héraðsdóms er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar og fíkniefni af ýmsum toga, sveðja og veiðihnífur gerð upptæk. Honum er jafnframt gert að greiða lögmanni sínum tæplega 300 þúsund krónur og tæplega 900 þúsund í annan sakarkostnað.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn, Daniel Arciszewski, hafi ítrekað verið stöðvaður í umferðinni undir áhrifum fíkniefna af ýmsu tagi. Hann hafi jafnframt haft í fórum sínum afsagaðan 22 kalibera riffil ásamt skothylkjum sem lögregla fann við leit í bifreið hans við BSÍ. Í annað skipti var hann með veiðihníf á sér og í eitt skiptið sveðju. Þess fyrir utan hefur lögreglan haldlagt mikið magn fíkniefna, svo sem e-töflur, amfetamín og kannabis, sem hann var með til sölu. Maðurinn játaði brot sín og sannað þykir að hann hefur gerst sekur um öll þau fjölmörgu brot sem hann var ákærður fyrir. 

Samkvæmt framlögðu sakavottorði á maðurinn allnokkurn sakaferil að baki sem nær allt aftur til ársins 1999. Meðal annars hefur hann hlotið níu fangelsisdóma fyrir ýmis hegningarlagabrot, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Þar á meðal þriggja ára dóm fyrir frelsissviptingu og og rán. Þar réðst hann í félagi við annan inn á heim­ili í Breiðholti og héldu þeir hús­ráðanda nauðugum, beittu hann of­beldi og rændu hann tæpri hálfri millj­ón króna.

Dómurinn í heild

mbl.is