Aukin hætta á rofi við undirstöður brúa

Brúin yfir Steinavötn eyðilagðist í flóðum árið 2017.
Brúin yfir Steinavötn eyðilagðist í flóðum árið 2017. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Veðursfarsbreytingar hafa áhrif á vetrarþjónustu vega,hvort sem það er snjómokstur og hálkuvarnir,“ sagði Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður hönnunardeildar Vegagerðarinnar. „Í gær [á miðvikudag] var ég að koma úr Lónsöræfum, þar sem verið er að byggja brú. Þar voru fjallvegir opnir í byrjun maí sem venjulega eru að opna í lok júní.“

Guðmundur Valur var meðal mælenda á ráðstefnu sem Lofts­lags­ráð stóð fyrir í gær um aðlög­un Íslands að lofts­lags­breyt­ing­um.

Sagði Guðmundur Valur aukna úrkomu, eða úrkomuákefð og vatn hafa áhrif á vegabyggingu og burðaþol vega. Þannig hafi veðurfarssveiflur hafi til að mynda áhrif á burðarlitla vegi, slit þeirra og niðurbrot. „Það hefur svo áhrif á lífvæntingatíma og niðurbrot,“ sagði hann.

Flóðatoppar hafa áhrif á ræsi og vegi

Aukin úrkoma og úrkomuákefð valdi sömuleiðis líka hærri flóðtoppum sem hafi áhrif á ræsi, sem og vegi við stendur og sjó.

Ekki megi heldur gleyma jöklabreytingunum. Þær geta haft áhrif á afrennsli jökuláa,“ sagði Guðmundur Valur og benti á dæmi um nokkrar brýr sem standa í dag á þurru landi nokkrum áratugum eftir að hafa verið reistar. Sagði hann slíkt vera gott dæmi um ástæður þess að Vegagerðin styðji við jöklarannsóknir.

Skemmdir á veginum um Skeiðarársand sjást hér á nokkurra ára …
Skemmdir á veginum um Skeiðarársand sjást hér á nokkurra ára mynd. Vegurinn var þá skemmdur eftir vöxt í Gígjukvísl. Ljósmynd/Lögreglan á Hvolsvelli

„Eitt af  því mikilvægasta við hönnun nýrra mannvirkja er að skilgreina forsendurnar og þá erum við að horfa til þess hve lengi mannvirkin standa og hversu oft við ætlum að endurnýja þau,“ sagði hann og útskýrði að þar sem jarðgöng og brýr séu dýrar sé þeim til að mynda ætlaður langur líftími. Þannig séu brýr yfirleitt hannaðar til að endast í 100 ár, ræsi til 40-50 ára, burðarlög vega til 20 ára og slitlög til 3-7 ára.

Gera ráð fyrir 10-15% stærri flóðum en áður

Þá sagði Guðmundur Valur rýrnun jökla og framskrið með tilheyrandi breytingu á landslagi og farvegum geta haft mikil áhrif á vegi og brýr. „Það er spáð auknu rennsli í jökulvötnum næstu áratugina. Það þýðir ekkert endilega stærri flóð, heldur að meðalrennslið sé meira,“ sagði hann. „Það getur svo valdið  auknum framburði, meira landrofi og meiri hættu á rofi við undirstöður sem er ein helsta orsök hruns brúa — ekki bara á Íslandi heldur alls staðar í heiminum.“

Aukin úrkoma geti þá valdið hraðara niðurbroti vega. „Það er ekkert spennandi við holur í vegum,“ bætti hann við.

Aðlögun að loftslagsbreytingum sé því nauðsynlegur hluti af verkfræðilegum undirbúningi vegna nýrra mannvirkja. Sagði Guðmundur Valur þetta hafa að einhverju leiti gert hönnunarforsendur Vegagerðarinnar stífari en áður. „Þetta jafngildi því að hönnunarflóðin séu að jafnaði 10-15% stærri og miði við 10-15% meiri vatnsorku,“ sagði hann. Þá hafi verið tekin  sú ákvörðun fyrir nokkrum árum að miða við hálfs metra sjávarborðshækkun sem viðmiðun við hönnun vega við sjó vegna samspils sjávarborðshækkana við landris. Breytingar hvað þetta varðar séu hins vegar hægar  og því ætti að vera hægt að bregðast við þeim.  

Lokanir dýrar fyrir vegfarendur og Vegagerð

„Næmni samfélagsins fyrir röskun á samgöngum  er líka meiri nú en áður,“ sagði hann og kvað þetta bæði til komið vegna flutnings á vörum og aukins ferðamannafjölda. Lokanir vega, hvort sem sé vegna vegaskemmda eða þungatakmarkanna, skipti því miklu máli fyrir fyrirtæki og einstaklinga og hafi efnahagslegar afleiðingar fyrir bæði lokendur og vegfarendur.

„Uppbygging og styrking margra núverandi vega er því nauðsynleg á næstu árum,“ sagði Guðmundur Valur og kvað marga innan Vegagerðarinnar vera á því að veðurfarslegir atburðir séu nú tíðari en áður.

mbl.is