Björn Þ. Guðmundsson látinn

Björn Þ. Guðmundsson.
Björn Þ. Guðmundsson.

Björn Þ. Guðmundsson fyrrverandi lagaprófessor við Háskóla Íslands lést fimmtudaginn 16. maí tæplega áttræður að aldri.

Björn fæddist á Akranesi 13. júlí 1939 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Guðmundur Björnsson kennari og Pálína Þorsteinsdóttir húsfreyja. Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1959 og embættisprófi, cand. juris, frá Háskóla Íslands 1965. Þá stundaði Björn framhaldsnám í alþjóðarétti með flug- og geimrétt sem sjálfstætt rannsóknarsvið við Ludwig-Maximilians-Universität í München 1965-66. Auk þess lagði hann stund á rannsóknir á sviði mannréttindalöggjafar í Bandaríkjunum 1971. Framhaldsrannsóknir á sviði mannréttinda við Universität zu Köln 1973. Rannsóknir í samanburðarlögfræði við The International and Comparative Law Center í Dallas í Texas, USA, 1980. Rannsóknir á sviði stjórnsýsluréttar við Kaupmannahafnarháskóla 1982, Freie Universität í Berlín 1984, University of California í Berkeley 1985, við Universiteit van Amsterdam 1988. Námsferðir í sama skyni til lagaháskólanna í Oxford haustið 1994 og Edinborg vorið 1995. 

Björn var skipaður fulltrúi hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík frá 1966 til 1972. Skipaður borgardómari í Reykjavík frá árinu 1972 til 1979. Settur umboðsdómari og setudómari í ýmsum málum á því tímabili auk þess að sitja í gerðardómum. Björn var settur prófessor í lögfræði við lagadeild Háskóla Íslands 1978 og skipaður prófessor ári síðar. Þar kenndi hann eignarrétt, veðrétt, sifjarétt, persónurétt en lengst af stjórnsýslurétt allt þar til hann lét af störfum árið 2004.

Björn var varaforseti lagadeildar Háskóla Íslands 1980 til 1982 og kjörinn forseti lagadeildar frá 1982 til 1984. Varaforseti lagadeildar 1994 til 1996 og endurkjörinn forseti lagadeildar 1996 til 1998. Björn var varadómari í Hæstarétti Íslands frá 1972 og settur hæstaréttardómari frá 15. september til 30. nóvember 1998. Sat hann í fjölda mála í Hæstarétti, einkum hin síðari ár. 

Jafnframt gegndi Björn ýmsum félags- og trúnaðarstörfum Hann var m.a. formaður Dómarafélags Reykjavíkur, kjörinn endurskoðandi Reykjavíkurborgar, átti sæti í löggjafarnefnd Dómarafélags Íslands, stjórn Félags háskólakennara, stjórn Lagastofnunar Háskóla Íslands, stjórn hugvísindadeildar Vísindasjóðs. Auk þess sat hann í vísindasiðanefnd, mannanafnanefnd, prófanefnd um öflun réttinda hæstaréttarlögmanna, úrskurðarnefnd viðlagatrygginga auk þess að sitja í ýmsum fleiri opinberum nefndum, einkum varðandi samningu lagafrumvarpa, t.d. að nýjum lögræðislögum, lögum um opinbera réttaraðstoð, lögum um eignarrétt að orku fallvatna og lögum um rannsókn flugslysa. 

Þá var Björn einn af stofnendum Íslandsdeildar Amnesty International, fyrsti formaður og frumkvöðull að stofnun Prófessorafélags Háskóla Íslands. 

Eftir Björn liggur fjöldi fræðigreina á sviði lögfræði sem birtust í íslenskum og erlendum fræðiritum. Björn var einnig höfundur að Formálabókinni þinni útg. 1975 og Lögbókinni þinni sem gefin var út 1973 en endurútgefin endurskoðuð 1989. Þótti Lögbókin þín marka tímamót sem einstakt fræðirit á sviði lögfræðinnar.  

Eftirlifandi eiginkona Björns er Þórunn Bragadóttir, fyrrum deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu f. 1940. Synir þeirra eru Guðmundur, aðjúnkt við Háskóla Íslands, f. 1960, og Bragi, lögmaður, f. 1968. Barnabörnin eru fimm og barnabarnbörnin þrjú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert