Fyrrverandi lögreglumaður dæmdur

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hari

Landsréttur hefur dæmt fyrrverandi lögreglumann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa veist að eiginkonu sinni og dóttur á heimili þeirra. Þar með var snúið við dómi Héraðsdóms Suðurland sem hafði sýknað manninn.

Að mati Landsréttar var hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi veist að konunni að nóttu til og hrint henni þannig að hún féll á borð í þvottahúsinu og haldið henni nokkra stund liggjandi á bakinu á borðinu. Ekki fannst þó nægileg stoð í framburði konunnar eða gögnum málsins að hún hafi við atlögu mannsins fallið á þvottahúsgólfið.

Einnig þótti sannað að maðurinn hafi veist að dóttur sinni með því að hafa slegið hana með krepptum hnefum beggja handa í bringuna þannig að hún lenti með bakið í vegg, tekið með báðum höndum í slopp sem stúlkan klæddist og ýtt henni í gólfið, haldið áfram þéttingsfast um sloppinn við bringu og þrýst hné sínu í hægra læri hennar.

Í málinu hafði maðurinn uppi kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi þar sem lögreglustjóri hefði verið vanhæf til að fara með rannsókn þess.

Í dómi Landsréttar kom fram að lögreglustjórinn gæti hvorki talist aðili málsins né hefði hún átt sérstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við rannsókn á meintum brotum mannsins.

Þrátt fyrir að rannsókn málsins hafi beinst að starfsmanni lögreglustjórans leiddu þau starfstengsl ekki ein út af fyrir sig til þess að lögreglustjórinn og undirmenn hennar hefðu verið vanhæf til að fara með rannsókn þess á frumstigi en lögreglunni hefði borið að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja rannsóknarhagsmuni.

Þá hefði málið ekki verið rannsakað frekar af embættinu eftir ákvörðun lögreglustjórans um að veita ákærða lausn frá embætti heldur verið falið öðru embætti til meðferðar.

Auk þriggja mánaða skilorðsbundins dóms var maðurinn dæmdur til að greiða allan sakarkostnað eins og hann var ákveðinn í héraði, svo og áfrýjunarkostnað málsins, 1.345.635 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhanns Péturssonar lögmanns, 1.240.000 krónur.

mbl.is