Mætti tveimur stórum bílum fyrir slysið

33 voru í rútunni er hún fór út af af …
33 voru í rútunni er hún fór út af af á Suðurlandsvegi og valt við Hofgarða, skammt norðan við Fagurhólsmýri. Flestir sluppu með skrámur, en fjórir liggja alvarlega slasaðir á Landspítalanum. Ljósmynd/Aðsend

Rútan, sem fór út af á Suðurlandsvegi í gær þeim afleiðingum að tugir slösuðust, hafði mætti tveimur stórum skömmu fyrir slysið. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir í samtali við mbl.is að bílstjóri rútunnar hafi greint lögreglu frá því að hann hefði mætt tveimur stórum bílum og hafi misst aðeins stjórnina á bílnum í framhaldi af því.

33 voru í rútunni er slysið var, en farþegarnir 32 voru allir kínverskir ferðamenn. Flestir sluppu með skrámur en fjórir liggja alvarlega slasaðir á Landspítalanum.

Sveinn Kristján segir þó ekki liggja enn fyrir hvað hafi gerst, né hvort að slysið megi rekja til þessa. „Vegurinn er hins vegar mjór og hann gefur engan afslátt. Ef það kemur slinkur á bílinn vegna vindhviðu eða annars, eða hann víkur út í kannt, þá er lítið sem þarf út af að bera,“ segir hann. Þá sé vegurinn líka orðnir slitinn og komin í hann hjólför. „Þetta hjálpar allt til,“ bætir Sveinn Kristján við. „Það verður þarna bara slys.“

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn slyssins og segir Sveinn Kristján að skoðað verði í dag hvort  að ástæða sé til að reyna að hafa uppi af bílstjórum hinna bílanna tveggja.  Rútan sem lenti í slysinu var íslensk og bílstjórinn, sem var vanur íslenskum aðstæðum, slapp ómeiddur. „Hann brást hárrétt við á vettvangi og fór strax í að aðstoða farþega,“ segir Sveinn Kristján.

Allri vettvangsvinnu  á slysstað var lokið í gær og í dag mun lögregla ræða við farþega og bílstjóra. „Nú þegar allir eru búnir að draga andann aðeins,“ bætir  hann við.

Flestir farþeganna enduðu á Hellu í nótt og telur Sveinn Kristján líklegt að lögregla reyni að ná hópnum saman aftur, en farþegum var dreift milli þriggja sjúkrahúsa, Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands, Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri.

Lögreglu hafa enn ekki borist fregnir af líðan þeirra farþega, en líkt og áður sagði voru fjórir farþeganna alvarlega slasaðir. Reynist þörf á að ræða við þá farþega sem voru fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri verður óskað aðstoðar lögreglunnar á Akureyri, en önnur viðtöl verða á hendi lögreglunnar á Suðurlandi.

Allir farþeganna voru kínverskir ferðamenn og segir Sveinn Kristján vel hafa gengið að ræða við þá. Nokkur fjöldi enskumælandi fólks hafi verið í hópnum og eins hafi leiðsögumaðurinn líka verið vel enskumælandi. „Við munum þó fá aðstoð túlka ef þess reynist þörf,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina