Mannaskítur og matarleifar í fjallaskála

Búið var að skíta á palli við skálann en kamarinn …
Búið var að skíta á palli við skálann en kamarinn er skammt frá. Ljósmynd/Stefán Jökull Jakobsson

„Hvað gengur fólki til? Það er óeðlileg mannleg hegðun að þurfa að skíta þar sem fólk gengur um þegar kamarinn er í 8-10 metra fjarlægð,“ segir Stefán Jökull Jakobsson, umsjónarmaður skála Ferðafélags Íslands, um aðkomuna í skála félagsins á Fimmvörðuhálsi um síðustu helgi. Vísir greindi fyrst frá. 

Mannaskítur, matarleifar og skelfileg umgengni blasti við umsjónarmönnum eins og meðfylgjandi myndir sýna.

Brotist hafði verði inn í læst herbergi skálavarðar þar sem meðal annars rekstrarvörur eru fyrir húsið og eldhúsáhöld til að elda mat. Óhreinir diskar lágu út um allt hús og matarleifar á borðum og gólfi og rusl utan af matvælum lá eins og hráviði.

Fólkinu hafði ekki tekist betur upp en svo í eldamennskunni að viðvörunarmiðar á eldhúsinu voru brunnir. „Það hefur eitthvað gerst í eldamennskunni,“ segir Stefán Jökull. 

Kemur reglulega fyrir 

„Því miður kemur þetta reglulega fyrir. Vanalega skilur fólk eftir lítils háttar rusl og drasl en þetta hefur ekki verið svona áður. Það hefur komið fyrir að fólk kúki fyrir framan hurðir og á pöllum,“ segir Stefán Jökull. Hann furðar sig á þessu háttalagi því það fer ekki fram hjá neinum sem á leið um þetta svæði að kamarinn stendur við skálana og er alltaf ólæstur. Það ætti því ekki að vera neitt vandamál að nota hann.  

Einhver hafði hreiðrað um sig í skálavarðarherberginu og skilið eftir …
Einhver hafði hreiðrað um sig í skálavarðarherberginu og skilið eftir óhreint leirtau. Ljósmynd/Stefán Jökull Jakobsson

Ummerkin í skálanum voru um sólarhrings gömul og sáust spor eftir fólkið í snjó. Reynt var að hafa upp á fólkinu en það reynist erfitt bæði að hafa upp á því og einnig fá það til að viðurkenna verknaðinn. „Það þarf eiginlega að standa fólk að verki með buxurnar á hælunum,“ segir hann. 

Spurður hvort til standi að manna skálana lengur eða setja upp öryggismyndavélar segir hann báða kostina snúna. „Rekstrarlega er erfitt að vera með skálavörð þarna upp frá í lengri tíma því engar tekjur koma til móts við útlagðan launakostnað. Öryggismyndavélar eru vandmeðfarnar út frá persónuverndarákvæðum,“ segir hann og bætir við: „Við erum opin fyrir öllum hugmyndum.“

Allur húsbúnaður skítugur.
Allur húsbúnaður skítugur. Ljósmynd/Stefán Jökull Jakobsson

Ferðafélagið stendur uppi með kostnaðinn því engin lög ná utan um slíka hegðun, að sögn Stefáns Jökuls. Hann segir dæmi um að bæði íslenskir og erlendir ferðamenn hafi gengið svona illa um.  

Þessir einstaklingar höfðu heldur ekki fyrir því að greiða aðstöðugjald en hægt er að gera það með því að skilja eftir pening í bauk þegar húsið er ekki mannað. „Við sjáum það alltaf ef það hefur einhver sofið í húsunum til dæmis á ruslinu og svo er gasið oft búið og lítill peningur í bauknum,“ segir hann. 

Kamarinn er skammt frá skálanum.
Kamarinn er skammt frá skálanum. Ljósmynd/Stefán Jökull Jakobsson

Hann segir það leiðinlegt fyrir alla að fólk komist upp með svona lélega umgengni. „Við erum að reyna að halda uppi skálum og markmiðið er að búa til ferðaþjónustuvænt umhverfi en það er erfitt þegar þetta blasir við,“ segir hann. Hann hvetur alla þá sem verða vitni að sóðalegri umgengni að benda fólki á það og láta vita af því. 

Ferðafélagið undirbýr sumaropnun í skálum sínum. Reiknað er með að þeir opni í næstu viku. „Skálverðirnir þurfa um fimm til sex daga til að undirbúa húsin. Snjórinn er að hverfa af stígunum en þeir eru ekki alveg tilbúnir að taka á móti miklum fjölda enn þá,“ segir Stefán Jökull sem var á leið inn í Landmannalaugar með skálaverði að taka út skálann þar þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans.  

Eldur hafði leikið um þessi tilmæli á bréfsnifsinu.
Eldur hafði leikið um þessi tilmæli á bréfsnifsinu. Ljósmynd/Stefán Jökull Jakobsson
Fólkið hafði sópað af borðum niður á gólf.
Fólkið hafði sópað af borðum niður á gólf. Ljósmynd/Stefán Jökull Jakobsson
Ljósmynd/Stefán Jökull Jakobsson
mbl.is

Bloggað um fréttina