Móðurmál og Hagaskólanemar verðlaunuð

Um helmingur nemenda Hagaskóla tóku þátt í mótmælum.
Um helmingur nemenda Hagaskóla tóku þátt í mótmælum. mbl.is/Árni Sæberg

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Móðurmáli - Samtökum um tvítyngi á Íslandi  Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2019 í gær, á mannréttindadegi borgarinnar. Réttindaráð Hagaskóla hlaut hvatningarverðlaun mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.

Mannréttindaverðlaunin eru nú veitt í tólfta sinn en þau eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og mikilvægi samfélags þar sem mannréttindi eru virt.

Móðurmál – samtök um tvítyngi eru regnhlífarsamtök móðurmálskennsluhópa sem kenna börnum innflytjenda móðurmál þeirra eða foreldra þeirra. Starfsemin grundvallast á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem segir að menntun barns skuli efla virðingu barnsins fyrir menningararfleifð sinni og tungu.

Í umsögn  valnefndar kemur fram að Samtökin hafi unnið gífurlega mikilvægt starf undanfarinn aldarfjórðung við að kenna börnum innflytjenda móðurmál sitt, styrkja erlenda foreldra í að viðhalda móðurmáli barna sinna og við að byggja upp þekkingu og reynslu í móðurmálskennslu á Íslandi.

Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaformaður mannréttinda- og lýðræðisráðs afhenti fulltrúum réttindaráðs Hagaskóla hvatningarverðlaun mannréttinda- og lýðræðisráðs. Hvatningarverðlaunin eru veitt fyrir  þróunar- og nýbreytnistarf á sviði mannréttinda- og lýðræðismála fyrir verkefni sem styðja við mannréttindavernd og lýðræðiseflingu. Réttindaráð Hagaskóla og aðrir nemendur sýndu eftirtektarvert fordæmi með undirskriftasöfnun og kröfugöngu í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að samnemandi þeirra, Zainab Safari, yrði send úr landi.

Í rökstuðningi segir:

„Með aðgerðum sínum vöktu þau mikla athygli á stöðu barna á flótta og mikilvægi þess að virða mannréttindi flóttafólks. Nemendur sýndu samstöðu, hugrekki og gagnrýna hugsun og með því vörpuðu þau ljósi á hversu mikil áhrif einstaklingar geta haft á samfélagið sitt án þess að vera sjálfir í valdastöðu“.

mbl.is