Mun rukka sendingagjald frá útlöndum

Sendingar frá útlöndum munu frá og með næsta mánuði bera …
Sendingar frá útlöndum munu frá og með næsta mánuði bera 400-600 kr. sendingagjald. Ljósmynd/Aðsend

Íslandspóstur mun frá bæta 400-600 kr. sendingagjaldi við sendingar frá útlöndum frá og með 3. júní næstkomandi. Mun þessi kostnaður bætast við 500 kr. umsýslugjald og virðisaukaskatt, sem þegar er rukkað fyrir.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Póstinum, en þar segir að Alþingi hafi nýverið samþykkt viðauka við póstlög sem heimilar slíka ráðstöfun. Er sendingargjaldinu ætlað að standa undir kostnaði við dreifingu erlendra sendinga sem hingað berast frá erlendum póstfyrirtækjum.

Verður sendingargjaldið 400 krónur fyrir sendingar frá Evrópu, en 600 krónur fyrir sendingar frá löndum utan Evrópu.

„Eftir þessa breytingu munu sendingar frá útlöndum sem innihalda vörur því bera aðflutningsgjöld sem greidd eru til ríkisins, ásamt umsýslugjaldi og hinu nýja sendingargjaldi sem Íslandspóstur innheimtir,“ segir í tilkynningunni.

Er ástæða þess að nauðsynlegt þótti að grípa til þessara ráðstafana  sögð vera sú að verð „samkvæmt alþjóðlegum samningum um póstsendingar hafi verið allt of lágt til að standa straum af kostnaði við dreifingu á Íslandi“. Þess vegna hafi Íslandspóstur þurft að fjármagna þann mismun.

Á síðasta ári nam tapið af þessum hluta starfsemi fyrirtækisins alls um 920 milljónum kr. og áframhaldandi tap hafi verið af þessari starfsemi á þessu ári.

Íslandspóstur hafi ekki svigrúm til þess að standa undir þessum kostnaði og því hafa stjórnvöld staðið fyrir breytingu á lögum um póstþjónustu, sem heimila innheimtu sendingargjalds til þess að fjármagna mismuninn.

mbl.is