Njóta líðandi stundar á hlaupum

Hlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu, einhverjir þeirra hlupu til styrktar Krafts.
Hlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu, einhverjir þeirra hlupu til styrktar Krafts. Ljósmynd/Aðsend

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur, heldur hlaup á sunnudaginn undir kjörorðum félagsins „lífið er núna“. 

„Þetta er í fyrsta skipti sem Kraftur stendur fyrir hlaupi sem þessu og erum við að halda hlaupið í tilefni af tuttugu ára afmæli félagsins,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts í samtali við mbl.is. 

Þátttakendur sýna stuðning með ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein en einnig er hlaupið góð áminning um að njóta þess að vera í núinu. Við erum í raun að halda þetta til að vekja fólk til vitundar um að koma saman og njóta líðandi stundar og til fjáröflunar fyrir Kraft í leiðinni, undir kjörorðunum lífið er núna. Það er það sem við höfum verið svolítið að agítera fyrir fólki, að njóta líðandi stundar,“ segir Hulda. 

Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts. Rax / Ragnar Axelsson

Um er að ræða 5 km hlaup með tímatöku og 1,5 km skemmtiskokk fyrir alla fjölskylduna. Hlaupið verður til frá Háskólanum í Reykjavík, til austurs eða vesturs eftir því í hvoru hlaupinu fólk tekur þátt í. Skemmtidagskrá verður á svæðinu og rennur allur ágóði af hlaupinu til Krafts sem styður við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum.

Skemmtidagskrá hefst við Háskólann í Reykjavík klukkan þrjú en Jón Jónsson verður á svæðinu ásamt Sirkusi Íslands og hoppuköstulum. Elísabet Margeirsdóttir, ofurhlaupari, hitar mannskapinn svo upp. 

Veglegir útdráttarvinningar verða fyrir alla keppendur og verðlaun veitt fyrir fyrsta sæti í karla- og kvennaflokki 

Hægt er að skrá sig hér https://netskraning.is/kraftur/.

mbl.is