„Staðan er góð“ segir forstjóri LSH

Páll við ræðuhöld á ársfundi Landspítala í Hörpu fyrr í …
Páll við ræðuhöld á ársfundi Landspítala í Hörpu fyrr í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Barnið vex en brókin ekki,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala (LSH), í ávarpi sínu á ársfundi Landspítala í Hörpu fyrr í dag. Vísaði hann í máli sínu m.a. til þess að frá hruni hefði íslensku þjóðinni fjölgað um 40.000 og að ferðamönnum, sem eðli málsins samkvæmt þyrftu oft að sækja heilbrigðisþjónustu, hefði einnig fjölgað gríðarlega. Hann lagði þó áherslu á að staða Landspítala væri góð, en áskoranirnar margar.

Margar áskoranir framundan

„Staðan spítalans er góð þegar kemur að verkefnum. Það er næg eftirspurn eftir okkar framlagi. Spítalinn er sífellt að taka við nýjum áskorunum og nýjum verkefnum og leysa þau vel af hendi,“ sagði Páll í samtali við blaðamann mbl.is eftir fundinn.

Inntur eftir frekari upplýsingum um áskoranirnar sem Landspítali stæði frammi fyrir á næstu misserum sagði Páll: „Uppbygging á Hringbrautarsvæðinu, og sú öryggisvegferð sem Hringbrautarverkefnið er, er áskorun, en auðvitað jákvæð áskorun. Fullnægjandi mönnun er einnig áskorun,“ sagði Páll en fyrr í samtalinu hafði hann bent á að vegna skorts á starfsfólki í hjúkrun, bæði hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum, þyrfti að manna mikið með yfirvinnu. Í því dæmi benti hann á, eins og fram kemur í ársreikningi LSH, að kostnaður vegna yfirvinnu fyrir árið 2018 hefði aukist um rúm 16% frá fyrra ári. 

Fjölmargir hlýddu á ræðu Páls. Forstjórinn var jákvæður en lagði …
Fjölmargir hlýddu á ræðu Páls. Forstjórinn var jákvæður en lagði áherslu á áskoranirnar sem spítalinn stendur frammi fyrir. mbl.is/Árni Sæberg

Vilja færa ákveðna þjónustu heim

„Þriðja áskorunin,“ hélt Páll áfram,„er að tryggja að þjónusta við aldraða sem þurfa endurhæfingu eða lengri tíma hjúkrunarþjónustu, fáist á hjúkrunarheimilum en ekki á spítalanum. Við finnum að það er fullur skilningur hjá stjórnvöldum á mikilvægi þessa verkefnis, og það er uppi áætlun um að byggja þau hjúkrunarheimili sem þarf, en þetta tekur allt tíma.“ Þá benti Páll á að einnig væri verið að vinna að öðrum leiðum til að mæta þörfum aldraðra, „þannig að fólk geti verið lengur heima“, og nefndi sem dæmi öflugri heimahjúkrun og flutning ákveðinnar þjónustu frá spítölum heim til sjúklinga. 

„Síðan er auðvitað sífelld áskorun að taka upp nýja meðferð, og hætta um leið meðferð sem er úrelt, og að vera sífellt að endurnýja sig,“ bætti Páll við. 

Mikilvægt að gera nám og starf aðlaðandi

Samtalið barst í kjölfarið aftur að mönnunarvanda í hjúkrun á Landspítala. Sagði Páll að málið væri flókið, og þyrfti að nálgast með ýmsum hætti. „Það þarf að mennta fleiri. Það eru færri að menntast en eru að hætta á næstu árum. Síðan þurfum við að laða fólk í vinnu hér, og að halda því í vinnu með því að hafa viðunandi álag,“ sagði hann og bætti við að einnig þyrfti að laða að fólk sem hefði viðeigandi menntun en starfaði annars staðar. „En þess ber þó að gæta að það er ekki eins stór hópur og margir vilja vera láta. Hjúkrunarfræðingar eru víða í öflugum störfum þar sem þeirra menntun nýtist.“ Þá sagði hann aðspurður að þess þekktust dæmi um að hjúkrunarfræðingar sem starfað hefðu hjá flugfélaginu WOW air hefðu snúið aftur á Landspítala, „en ekki í stórum stíl.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ávarpaði fundargesti í gegnum myndband.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ávarpaði fundargesti í gegnum myndband. Árni Sæberg

Heilbrigðisráðherra ávarpaði gesti í gegnum myndband

Að vanda var mikið um að vera á ársfundi LSH í dag en fundurinn hófst með ávarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem gat þó ekki verið á staðnum en ávarpaði gesti í gegnum myndskeið sem sýnt var á staðnum. 

Næstur kom Páll með ofannefnt ávarp sitt og á eftir fylgdi Ólafur Darri Andrason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs LSH, sem fór yfir ársreikning ársins 2018. 

Eftir að ávörpum lauk var sagt sérstaklega frá tveimur verkefnum sem þóttu hafa tekist vel til, eða nýju verklagi við heilaslag og uppbygging jáeindaskanna.

Þá voru sýnd viðtöl við heiðursvísindamann Landspítala 2019 og ungan vísindamann Landspítala 2019. Helga Jónsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður hjúkrunar langveikra fullorðinna í samtengdri stöðu á Landspítala, hlaut fyrri titilinn og Þórir Einarsson Long var útnefndur ungur vísindamaður LSH. Sá er fæddur 1989 og útskrifaðist með kandidatspróf í læknisfræði við Háskóla Íslands 2015. Hann lauk kandídatsári á Landspítala 2016 og hefur síðan þá starfað sem sérnámslæknir á lyflækningasviði Landspítala.

Því næst var annað starfsfólk heiðrað og að síðustu sýnt myndband um samstarf Landspítala við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Frekari upplýsignar um ársfundinn má finna hér.

Fjöldi gesta kom saman á ársfundi LSH í Silfurbergi í …
Fjöldi gesta kom saman á ársfundi LSH í Silfurbergi í Hörpu í dag. Árni Sæberg
mbl.is