Tekjuhalli Landspítala 1,4 milljarðar

Eigið fé er neikvætt um 1,94 milljarða króna.
Eigið fé er neikvætt um 1,94 milljarða króna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ársvelta Landspítala (LSH) var um 74,22 milljarðar króna árið 2018. Þetta kemur fram í ársreikningi Landspítalans sem Ólafur Darri Andrason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs LSH, kynnti á ársfundi LSH í Hörpu fyrr í dag.

Ársvelta Landspítala jókst um u.þ.b. 6,1 milljarð á milli áranna 2017 og 2018. Tekjuhalli var á árinu 2018 þar sem rekstrargjöld og afskriftir voru 1,43 milljarðar króna umfram tekjur. Sagði Ólafur í kynningu sinni fyrr í dag að stærsta einstaka skýringin fyrir halla þessum væru verðbætur fjárlaga.

Yfirvinnukostnaður hækkaði um 16%

Þá benti hann á að launagjöld væru langstærsti kostnaðarliður Landspítala, u.þ.b. 76% heildarkostnaðar spítalans og að sá kostnaður hefði hækkað um 11,3% frá fyrra ári. Í ársskýrslu segir að launahækkanir skýri u.þ.b. 6,5% prósentustig þeirrar hækkunar. Einnig benti Ólafur á að kostnaður vegna yfirvinnu hefði hækkað um 16,1% frá fyrra ári.

Eigið fé spítalans er neikvætt samtals að fjárhæð 1,94 milljörðum kr. í árslok 2018. Eignir spítalans nema 18,59 milljörðum kr. en skuldir eru samtals 20,53 milljarðar kr.

Ársreikning Landspítala má skoða hér

mbl.is