Fjölhæfir íslenskunemar heilluðu ráðherra í Kína

Lilja Alfreðsdóttir með íslenskunemunum.
Lilja Alfreðsdóttir með íslenskunemunum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Glæsilegur hópur íslenskunema tók á móti Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem heimsótti Háskóla erlendra fræða í Peking í Kína í vikunni. Við skólann er einnig rannsóknarsetur íslenskra fræða en meðal þeirra sem ráðherra hitti í heimsókn sinni var Zhang Weidong, fyrrverandi sendiherra Kína á Íslandi, sem nú er þar gestaprófessor.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Við fengum góða kynningu á starfsemi skólans sem stundum er kölluð „vagga utanríkisþjónustu Kína“ enda hafa yfir 400 sendiherrar lokið þaðan námi í gegnum tíðina. Íslenska er meðal þeirra 100 tungumála sem kennd eru við skólann og það var afskaplega skemmtilegt að hitta nemendurna sem stóðu sig einkar vel – þau sungu fyrir okkur á íslensku, fluttu ljóð með miklum tilþrifum og svo áttum við gott spjall um Ísland og íslenska tungu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Tungumálakunnátta opnar margar dyr og við fögnum öllum þeim sem velja að læra íslensku – við þurfum á slíkum vinum og málnotendum að halda til að efla tungumálið okkar og tryggja þróun þess til framtíðar. Sem dæmi um slíkan vin íslenskunnar vil ég sérstaklega nefna núverandi sendiherra Kína á Íslandi, Jin Zhijian, sem hjálpaði okkur við að undirbúa heimsóknina til Kína og vinnur ötullega að því að efla tengsl landanna tveggja,“ er haft eftir Lilju.

Íslenska hefur verið kennd við Háskóla erlendra fræða í Peking frá árinu 2008. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur umsjón með kennslu í íslensku og þjónustu við háskólakennara í íslensku við erlenda háskóla af hálfu íslenskra stjórnvalda.

mbl.is