Hlaut áverka á hendi í álverinu

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Slys varð í álverinu í Straumsvík um hálfþrjúleytið í dag þar sem starfsmaður fékk áverka á hendi. Að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var hann með mikla verki. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild þar sem gert var að sárum hans. 

Starfsmenn bílasölu í Árbænum óskuðu eftir aðstoð lögreglu laust fyrir klukkan eitt í dag vegna manns sem var reyna að stela bifreið. Sá hafði komið á staðinn í leigubíl sem hann greiddi ekki fyrir. Maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, var handtekinn og vistaður í fangageymslu, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar. 

Tilkynnt var um mann að reyna að opna bifreiðar í hverfi 105 í Reykjavík upp úr klukkan sex í morgun. Hann fannst skömmu síðar og var handtekinn grunaður um innbrot og þjófnað úr nokkrum bifreiðum.

Viðkomandi er á reynslulausn vegna svipaðra brota og var hann vistaður í fangageymslu.

Um hálfþrjúleytið í dag var tilkynnt um búðarhnupl í hverfi 104. Skýrslutaka var tekin á vettvangi og var aðilinn látinn laus að því loknu.

Í hádeginu stöðvaði lögreglan ökumann grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Fíkniefni fundust við leit og var maðurinn látinn laus að lokinn sýna- og skýrslutöku.

mbl.is