Borgarbúar spöruðu klósettferðirnar

Söngvarinn Matthías Tryggvi Haraldsson skálar fyrir öllum sem sátu í …
Söngvarinn Matthías Tryggvi Haraldsson skálar fyrir öllum sem sátu í spreng og horfðu á meðan hann söng í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vatnsnotkun Reykvíkinga minnkaði til muna þegar Eurovision-söngvakeppnin var sýnd í sjónvarpinu í gærkvöld miðað við laugardagskvöldið í vikunni á undan. Þetta kemur fram í tölum frá Veitum en þar segir m.a. að um hálftíma áður en útsending hófst hafi mátt merkja minnkandi notkun vatns. Hún hafi svo minnkað stöðugt allan tímann á meðan á keppninni stóð. 

Eins og við mátti búast virðast flestir borgarbúar hafa setið límdir yfir skjáunum þegar Hatari flutti  atriði sitt en vatnsnotkun Reykvíkinga tók greinilega dýfu á meðan á atriðinu stóð. Einnig mátti merkja minni vatnsnotkun en vanalega þegar Madonna flutti atriði sitt, og sömuleiðis þegar hinn sænski Måns Zelmerlöw steig á stokk.

Minni áhugi á auglýsingum

Ljóst er að öðru hvoru kallar náttúran og spyr hún ekki hvort Eurovision-söngvakeppnin er í gangi eða ekki. Virðast borgarbúar hafa nýtt auglýsingahléin til að svara kallinu en þegar á þeim stóð mátti merkja greinilega aukningu í vatnsnotkun.

Eins og áður segir var vatnsnotkun þó minni en laugardaginn viku áður allan tímann sem á útsendingu stóð. 

Eins og sjá má tók vatnsnotkun greinilega dýfu þegar Hatari …
Eins og sjá má tók vatnsnotkun greinilega dýfu þegar Hatari var á sviðinu í gærkvöld. Myndrit/Veitur
mbl.is