Ekkert svigrúm fyrir hræðslu

19 ára gömul gekk Minni óbangin til liðs við anspyrnuhreyfinguna …
19 ára gömul gekk Minni óbangin til liðs við anspyrnuhreyfinguna í Noregi. mbl.is/​Hari

Minni Gunnarsson Kalsæg átti annað og gjörólíkt líf áður en hún flutti til Íslands árið 1951. Hún starfaði fyrir norsku andspyrnuhreyfinguna í hættulegri nálægð við Þjóðverja sem höfðu meðal annars lagt undir sig heimili hennar. Minni er 97 ára í dag og verður 98 á árinu.

Ég er fædd 27. september 1921. Þú mátt alveg reikna út fyrir mig hvað ég verð gömul, ég veit ekki alveg hvort ég er að verða 79 eða 89 ára,“ segir Minni Gunnarsson kankvís og brosir. Minni sem er 97 ára, að verða 98 ára hét Minni Kalsæg áður en hún fluttist til Íslands árið 1951.

Ættarnafnið er norskt en þrátt fyrir að Minni hafi í mörg ár reynt að fá að nota Kalsæg voru nafnalögin það ströng að það var ekki einu sinni til að ræða það að hún fengi að nota eitthvert útlenskt ættarnafn. Dóttir hennar er búin að lofa henni að þegar kemur að því að setja nafn hennar á legstein skuli standa þar Minni Kalsæg Gunnarsson.

Átta ára þegar faðir hennar deyr

Minni ólst upp í bænum Eidsvoll í Suðaustur-Noregi, í stóru húsi með foreldrum sínum, systur og ömmu og afa föðurmegin. Afi hennar, Carl Martin Kalsæg, var virtur kaupsýslumaður, stundaði verðbréfaviðskipti og rak meðal annars verslun og heildsölu hjá heimili þeirra. 

„Hitler var þekktur fyrir hrifningu sína á Noregi. „Norwegen über …
„Hitler var þekktur fyrir hrifningu sína á Noregi. „Norwegen über alles,“ sagði hann stundum.“ mbl.is/​Hari

Minni og systir hennar, Kari, voru fljótt komnar alfarið undir verndarvæng afa síns og ömmu, Minu Kalsæg, því faðir hennar, Ole Martin, lést aðeins 36 ára gamall en þá var Minni sjálf átta ára. Mamma hennar, Olga Marie, giftist síðar að nýju og flutti til Óslóar.

„Norwegen über alles“ 

Afi Minni dó 1935, þegar var hún 14 ára, og 19 ára gömul gekk hún óbangin til liðs við andspyrnuhreyfinguna í Noregi.

„Hitler var þekktur fyrir hrifningu sína á Noregi. „Norwegen über alles,“ sagði hann stundum. Hann hafði lýst því yfir að helst vildi hann sjálfur setjast að í Noregi og virtist eitthvað heltekinn af landinu og þegar þýski herinn kom til okkar vorum við strax viss um að hann myndi eyðileggja landið og við vildum gera eitthvað til að koma í veg fyrir það,“ segir Minni í viðali í við blaðamann Morgunblaðsins.

Minni rifjar upp þessa tíma sem voru henni ekki síst hættulegir þar sem Þjóðverji dvaldi í húsinu, á háaloftinu geymdi hún mikið magn af lyfjum, morfíni og sáraumbúðum en hún og hennar hópur var þjálfaður, undir handleiðslu norskra lækna og hjúkrunarfólks, til að geta sinnt særðum Norðmönnum ef þeir væru kallaðir út til að berjast. Systir hennar, sem var þá í læknisnámi, skoðaði birgðirnar og hjálpaði henni að raða þeim uppi á lofti og sagði henni að fara sérlega varlega, hún væri með morfín til að drepa 200 manns.

Varstu ekkert hrædd við að geyma þetta?

„Það var ekkert um annað að ræða, við höfðum ekki aðra aðstöðu. Í fyrstu voru fundirnir í öðru húsi en það var ljóst að við vorum í hættu þar þegar ákveðin kona fór að sniglast þar í kring, ganga fram og til baka fram hjá húsinu þegar við vorum með fundi. Við höfðum verið vöruð við henni. Ég var í stóru húsi og formaðurinn okkar bað mig um að taka fundina heim til mín, þrátt fyrir Þjóðverjann, og það gerði ég,“ segir Minni í viðtali við Júlíu Margréti Alexandersdóttur. Viðtalið má lesa í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðisins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert