Guðni kvartar ekki yfir Hatara

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú í …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú í Winnipeg á aldarafmæli Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi. Ljósmynd/Embætti forseta Íslands

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var um borð í bifreið á fleygiferð á milli Gimli og Riverton í Manitoba-ríki í Kanada í gær þegar Hatari steig á svið í Eurovision í Tel Aviv. Guðni náði, ásamt eiginkonu sinni Elizu Reid, að horfa á upphaf atriðisins í beinni útsendingu í símanum áður en netsambandið rofnaði.

Þannig misstu hjónin af því sem eftir lifði atriðisins en fengu þó sýnishorn af því sem fór fram. „Við náðum að horfa og hlusta á upphaf lagsins en misstum síðan netsambandið akkúrat í þann mund sem drengirnir hófu að rymja af miklum móð,“ sagði Guðni glaður í bragði í samtali við mbl.is.

Síðar um kvöldið höfðu þau svo veður af úrslitunum. „Ég held að ég megi segja það fyrir hönd okkar Elizu að við erum nokkuð sátt með 10. sætið,“ sagði Guðni.

Og hvað fannst Guðna um uppátæki Hatara á meðan verið var að kynna stigin, þegar þeir drógu upp palestínska fánann?

„Þetta er eitt af því sem ég þarf ekki að hafa opinbera skoðun á blessunarlega,“ sagði hann. „En þetta eru ljúfir drengir og þeir kunna að láta á sér bera,“ bætti hann jafnframt við. „Það er ekkert yfir því að kvarta.“

Þjóðrækni Íslendinga í Vesturheimi

Þegar mbl.is náði tali af Guðna var hann staddur í veislu hjá ræðismanni Íslendinga í Winnipeg, Þórði Bjarna Guðjónssyni, og Jórunni konu hans. Hann kom til Kanada í gær og fer um Íslendingabyggðir þessa dagana.

Tilefni heimsóknar forsetans er aldarafmæli Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi. Það var stofnað í Winnipeg árið 1919. „Auðvitað hefur margt breyst síðan fyrstu Íslendingarnir komu á þessar slóðir. Árið 1875 má segja að landnám Íslendinga hafi hafist hérna,“ sagði Guðni.

Guðni sagði að enn séu þeir til á svæðinu sem tala íslensku reiprennandi, en að þeim fari fækkandi. „Þeir eru þó allnokkrir sem ég hef spjallað við hérna á íslensku. Þeir eru vissulega frekar af eldri kynslóðinni en þó eru yngri Vestur-Íslendingar sem tjá sig á íslensku og gera það vel,“ sagði Guðni.

Guðni og Eliza njóta leiðsagnar við minnisvarða um landnám fyrstu …
Guðni og Eliza njóta leiðsagnar við minnisvarða um landnám fyrstu Íslendinganna í Manitoba. Sá stendur á Víðinesi, eða Willow Island. Ljósmynd/Forseti Íslands

„Trainið er að koma“ — Paradís samanburðarmálfræðinga

Málstig þeirra Íslendinga sem fluttust vestur um haf á ofanverðri 19. öld var vitaskuld 19. aldar málstig. Guðni féllst á það að tungutak þeirra sem enn tala íslensku á þessum slóðum kynni að hljóma forneskjulega í eyrum nútíma-Íslendinga. „Það má segja það. Auðvitað kemur fyrir að fólk hefur ekki á hraðbergi rétta íslenska orðið eða hittir ekki á rétta fallið,“ sagði forsetinn.

„En það er nú ekki eins og við Íslendingar séum hvort eð er sjálfir með það á hreinu,“ sagði hann og hló við.

Guðni sagði áhugavert að eiga samtöl við Vestur-Íslendinga, meðal annars af þessum sökum. „Þetta er auðvitað rannsóknarefni. Þetta er paradís samanburðarmálfræðinga, að velta fyrir sér hvernig sama tungumál þróast á tveimur ólíkum stöðum,“ sagði Guðni.

„Fyrstu kynslóðir Íslendinga sem komu hingað töluðu auðvitað íslensku sín á milli framan af en hófu svo fljótt að taka inn ensk orð í stað þeirra íslensku í sumum tilvikum,“ sagði Guðni. „Þeir hættu að tala um lestir og járnbrautarlest og fóru að tala um „trainið“, „trainið“ er að koma,“ sagði hann. „Og „carið“, að fara eitthvað í „carinu“,“ sagði hann að væri annað dæmi.

„Þannig að þetta eru mjög skemmtilegar pælingar sem vakna hérna,“ hélt forsetinn áfram fullur áhuga.

„Þeir geta sagt með stolti að þeir séu komnir af Íslendingum“

„Auðvitað mun þeim halda áfram að fækka sem tala íslensku reiprennandi. Það er óumflýjanlegt,“ sagði Guðni. „Hlýhugurinn og ræktarsemin við gömlu ættjörðina er þó alltaf söm,“ sagði hann.

„Hér býr kanadísk þjóð og á meðal þeirra geta flestir rakið ættir sínar í allar áttir. Sumir til frumbyggja, aðrir til Skota, Íra eða Úkraínumanna eða þar fram eftir götum. Hér í Winnipeg er það síðan svo, að tiltölulega margir geta sagt með stolti að þeir séu komnir af Íslendingum.“

Guðni sagði að Snorraverkefnið svonefnda hafi gert mikið til að styrkja samband Íslands og samfélags Vestur-Íslendinga. Það verkefni hlúi að íslenskri tungu á þessum vettvangi. „Verkefnið hófst fyrir tuttugu árum. Fyrir tilstilli þess koma Vestur-Íslendingar, eða Kanadamenn eða Bandaríkjamenn af íslensku bergi brotnir, til Íslands og stunda nám í íslensku og kynnast landi og þjóð. Þeir fara oftar en ekki á heimaslóðir forfeðra sinna,“ sagði Guðni.

Guðni hélt erindi á 100 ára afmælisþingi Þjóðræknisfélags Íslendinga í …
Guðni hélt erindi á 100 ára afmælisþingi Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi. Kynningarplögg þar á bæ eru á ensku, en þó nokkrir eldri borgarar kunna þó enn íslensku. Ljósmynd/Forseti Íslands

„Þetta verkefni hefur gert svo mikið til að styrkja þetta samband,“ sagði hann og nefndi að það væri áherslumál að efla verkefnið til að halda lífi í sambandinu á milli þjóðanna.

Sömuleiðis sagði Guðni mál að efla samstarf háskólanna á Íslandi og í Kanada. „Við viljum efla samband Manitoba-háskóla og Háskóla Íslands. Þar er góður farvegur fyrir samskipti og samvinnu.“

Að lokum sagði Guðni að Íslendingar ættu að sýna Vestur-Íslendingum sömu gestrisni og þeir sýna íslenskum gestum. „Hér erum við aufúsugestir, og svoleiðis ætti það að vera heima á Íslandi gagnvart þeim,“ sagði hann. „Við skulum sýna þeim hlýhug og velvild sem snúa heim af þessum slóðum.“

mbl.is