Margt sem við þyrftum að vakta betur

Ýsa í kví Útgerðarfélags Akureyringa skammt utan Krossaness.Ýsan, sem var …
Ýsa í kví Útgerðarfélags Akureyringa skammt utan Krossaness.Ýsan, sem var lengst af mest við Suður- og Vesturland, veiðist nú orðið í miklu magni fyrir norðan. Mynd úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

66% af um­hverfi sjáv­ar hef­ur tekið veiga­mikl­um breyt­ing­um vegna gjörða mann­skepn­unn­ar og einungis 7% fiskistofna hafsins voru árið 2015 veiddir undir ýtrustu mörkum sjálfbærni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem kynnt var á veg­um Sam­einuðu þjóðanna í síðustu viku og sem sýn­ir að vist­kerf­um jarðar hrak­ar nú á hraða sem ekki hef­ur áður sést í mann­kyns­sög­unni.

Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri á botnsjávarsviði hjá Hafrannsóknarstofnun, segir vissulega vera dregna fram dökka mynd í skýrslunni. Þar kemur fram að árið 2015 hafi 33% fiski­stofnar hafs­ins verið veidd­ir með ósjálf­bær­um hætti, 60% hafi verið við sjálf­bærni­mörk og ein­ung­is 7% stofna hafi verið veidd­ir und­ir ýtr­ustu mörk­um sjálf­bærni.

Hafrannsóknastofnun er ekki komin með skýrsluna, en Guðmundur hefur náð að kynna sér útdráttinn úr henni.  „Það er talað þarna um að mikið af stofnum séu ofveiddir sem er ekki raunin hér við landi,“ segir hann. „Flestir stofnar hjá okkar eru veiddir miðað við hámarksafrakstur, sem er 60% eins og talað er um. Helsta ógn okkar er  hins vegar hitabreytingar og súrnun sjávar.“

Skýrslan bygg­ir á um 15.000 heim­ild­um, en þar kem­ur meðal ann­ars fram að yfir ein millj­ón teg­unda, af þeim átta millj­ón­um sem þekkt­ar eru á jörðinni, séu í út­rým­ing­ar­hættu og að bú­ast megi við því að fjöl­marg­ar teg­und­ir deyi út inn­an fárra ára­tuga.

Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri á botnsjávarsviði hjá Hafrannsóknarstofnun, segir þó tvímælalaust …
Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri á botnsjávarsviði hjá Hafrannsóknarstofnun, segir þó tvímælalaust ástæðu til að vakta lífríki hafsins betur fáist til þess nægilegt fjármagn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Aukin útbreiðsla hlýsjávartegunda

Guðmundur segir vel þurfa að fylgjast með, þó ekki sé enn farið að sjá mikil merki um áhrif þessara þátta í hafinu við Íslandsstrendur. „Hitabreytingar hafa þó vissulega haft áhrif á útbreiðslu stofna hér við land,“ segir hann og nefnir sem dæmi að útbreiðsla hlýsjávartegunda við landið hafi aukist.

Ísland sé hins vegar þannig staðsett að þorskinum, sem er einn helsti nytjastofn íslensks sjávarútvegs, líði vel hér og hitabreytingar hafi því ekki verið að hafa mikil áhrif á hann.

Halldór Björnsson, formaður vísindasiðanefndar um loftslagsbreytingar, kom inn á áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins á ráðstefnu sem Lofts­lags­ráð stóð fyr­ir í gær um aðlög­un Íslands að lofts­lags­breyt­ing­um. Nefndi hann þar að hlýnun sjávar hefði haft áhrif á stofnstærðir á Íslandsmiðum. Þannig hefði loðnan hefði vikið, makríllinn  kæmi inn þegar hlýnaði og eins hefði hlýnunin líka haft áhrif á sandsílin sem aftur hefði áhrif á fuglalífið. Guðmundur samsinnir þessu sem og að flækingum hafi fjölgað í íslenskri fiskilögsögu, en fram kom í máli Halldórs að 34 nýjar tegundir hefðu greinst innan íslenskrar lögsögu.

„Það er vissulega rétt það hefur komið meira af flækingum,“ segir Guðmundur. „Það helsta sem við verðum vör við eru þó þessir stofnar sem eru í veiðum  og frægastur þeirra er makrílinn.“  Þá hafi tegundum sem ekki veiddist mikið af, eins og þykkvalúru og skötusel, löngu, keilu og blálöngu fjölgað mikið á tímabili.

Fiskiskip á veiðum. Mynd úr safni.
Fiskiskip á veiðum. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Áhrifin á ýsuna jákvæð en neikvæð á loðnu

Eins veiðist ýsan, sem var lengst af mest við Suður- og Vesturland, nú orðið í miklu magni fyrir norðan. „Ein aðalástæðan sem talin er fyrir því að ýsunni fjölgaði  svona svakalega upp úr aldamótunum er að í raun fékk hún þá aðgang að búsvæði sem kannski var meira lokað fyrir hana áður,“ segir Guðmundur og nefnir þar tegund sem hlýnun sjávar hefur haft jákvæð áhrif á. „Áhrifin eru hins vegar líklega neikvæð á loðnuna,“ bætir hann við.

Spurður hvort Hafrannsóknastofnun fylgist náið með öðrum tegundum en nytjastofnum segir Guðumundur allar tegundir skráðar, taldar og mældar í stofnmælingum botnfiska á vorlagi, vor- og haustrallinu svonefnda. „Það er þaðan sem megnið af þessum upplýsingum um flækinga kemur,“ segir hann og kveður stofnunina hafa í skýrslunni sem kom út fyrir síðasta vorrall hafa fjallað aðeins um þessar sjaldgæfari tegundir.

„Það er sem betur fer alltaf verið að auka söfnunina á tegundum. Við erum líka farin að fylgjast með botndýrum og eru einnig farin að skrá plast og rusl. Þannig að þetta er farið að vera meiri vistkerfismælingar en var í upphafi, þegar þetta var bara þorskur og ýsa.“

Sú þróun hefur að sögn Guðmundar verið að koma smátt og smátt inn. „Við erum búin að vera að skrá plastið í nokkur ár,“ segir hann og kveður plast sjást mjög víða í rallinu. „Það er mestmegnis veiðafærarusl.“

Skráning  botndýra er erfiðari í framkvæmd og því er bara tekið ákveðið svæði í einu þar. „Það sem hefur komið mest á óvart, af því að röllin eru að mestu á veiðislóðum, er að við erum samt stundum að fá tegundir sem eru einkennistegundir fyrir viðkvæm búsvæði, eins og kóralbrot og annað slíkt.“

Hlýnun sjávar hefur haft jákvæð áhrif á ýsuna, en áhrifin …
Hlýnun sjávar hefur haft jákvæð áhrif á ýsuna, en áhrifin á loðnuna hafa verið neikvæð. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ekki endilega í útrýmingarhættu

Mbl.is ræddi við Trausta Bald­urs­son, for­stöðumann vist­fræði- og ráðgjafa­deild­ar Nátt­úru­fræðistofn­unnar Íslands, fyrr í vikunni um þær tegundir hér á landi sem eru á válista og vakti hann þá athygli á því að ekki séu til íslenskir válistar fyrir fiska, skordýr eða sveppi. Spurður hvort það sé áhyggjuefni að slíkur listi sé ekki til fyrir lífverur hafsins segir Guðmundur svo ekki endilega vera.

„Það er alltaf spurning hvernig er skilgreint hvað fer á válista.  Ef tegundin er í útrýmingarhættu þá skilur maður það, en þó að stofnstærð minnki mikið þá þarf það ekki endilega að þýða að hún sé í útrýmingarhættu.“  Margir stofnar hér við landi hafi farið niður miðað við það sem var í upphafi mælinga, en mælingarnar nái ekki allar yfir langan tíma og því geti verið erfitt að segja til um hvort um varanlega minnkun sé að ræða.

Guðmundur segir þó tvímælalaust ástæðu til að vakta lífríki hafsins betur fáist til þess nægilegt fjármagn. „Það er mjög margt sem þyrfti að vakta miklu betur. Fyrir utan þessi röll, þá eru þessi viðkvæmu búsvæði sem við höfum ekki staðið okkur nógu vel í að kortleggja,“ segir hann. Sama megi segja með meðafla með veiðum fiskiskipa. „Þar er frægust sjávarspendýr og fuglar. Einnig eru þar ýmsar háfategundir, skötur og annað slíkt, sem og þegar skipin lenda í að taka upp kóraltré og annað slíkt. Það er eiginlega þar sem skóinn kreppir.“

Þyrfti að setja aukin kraft í kortlagningu

Vor- og haustrallið og þær niðurstöður sem þar fást eru þó ákaflega verðmætar að sögn Guðmundar. „Í fullkomnum heimi þyrfti hins vegar að setja stóraukin kraft í það að kortleggja búsvæðin í hafinu,“ bætir hann við.

Í dag reyni Hafrannsóknastofnun að komast út annað hvert ár, en ef vel ætti að vera þyrfti starfsfólk stofnunarinnar að komast í 3-4 vikna túr árlega. „Það myndi gefa skýrari mynd af því hvert ástandið er og hvort það séu einhver svæði sem þurfi að vernda,“ segir Guðmundur og bendir á að mörg þessara viðkvæmu búsvæða séu mikilvæg uppvaxtarsvæði fyrir fiska og fiskaungviði.

Vissulega sé jákvætt að fara  eigi að smíða nýtt rannsóknaskip. Skóinn hafi hins vegar kreppt, og geri enn, varðandi fjármagn til þess að stunda rannsóknir. „Þrátt fyrir að það hafi aðeins verið bætt í rannsóknir á uppsjávarfiskum, þá kreppir vel að heilt yfir rekstri stofnunarinnar“ segir hann.  

Frekari rannsóknir á lífríki hafsins gagnist Íslandi, bæði varðandi stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum og verndun náttúru. „Það er líka mikilvægt að geta sýnt umheiminum að hlutirnir séu í ágætis standi hér og það skiptir líka miklu máli í markaðsstarfi fyrir sjávarafurðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert