Sýslumenn senda út neyðaráskorun

Gjarnan er erill á skrifstofu sýslumannsins í Kópavogi.
Gjarnan er erill á skrifstofu sýslumannsins í Kópavogi. mbl.is/Styrmir Kári

„Vegna viðvarandi hallarekstrar hafa [sýslumanns]embættin talið sig knúin til aðgerða á kostnað veittrar þjónustu, þ.á.m. beinna uppsagna, flatra uppsagna til lækkunnar allra stöðugilda, styttingu afgreiðslutíma, frestunar nýráðninga við starfslok o.s.frv.“ Þetta er á meðal þess sem segir í áskorun sem undirrituð er af öllum sýslumönnum landsins, og send var til stjórnvalda 7.maí sl.

Í áskoruninni er vísað til álits stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis frá 29.apríl sl. þar sem segir m.a. að þegar umfangsmiklar breytingar urðu á skipulagi sýslumannsembætta árið 2015, og þeim fækkað úr 24 í 9, hafi markmiðið m.a. verið að búa til öflugri þjónustustofnanir sem gætu staðið betur að vígi við að sinna hlutverki sínu og tekið að sér aukin verkefni. Hins vegar sé staðan nú sú að markmið um eflingu embættanna hafi ekki náð fram að ganga. 

Engar breytingar á verkefnum

Eins og kemur fram að ofan hefur viðvarandi hallarekstur verið á sýslumannsembættunum og segir í áðurnefndri áskorun: „Það athugast að þrátt fyrir framangreint hafa litlar sem engar breytingar orðið á verkefnum sýslumannsembættanna frá sameiningu. Áform um rafrænar þinglýsingar og aðra mögulega þróun í átt til ríkari rafrænnar stjórnsýslu draga að svo stöddu ekki úr fjárþörf þeirra, enda nægir núverandi framlag ekki til reglulegra verkefna og rekstrarútgjalda. Innviðir embættanna og þjónusta eru hins vegar í hættu vegna þess sem nú á fimmta rekstarári má kalla vísi að langvarandi fjársvelti.“

Þá segir að lokum að sýslumenn skori á fjárveitingarvaldið að snúa vörn í sókn og nýta tækifærin til eflingar embættanna sem miðstöðvar stjórnsýslu ríkis í héraði, eins og að var stefnt með setningu laganna frá 2014. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert