Þekkingarleysi eða vísvitandi blekking

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrir liggur að embættismenn og ráðherrar hafa annað hvort ekkert vitað hvað þeir voru að gera þegar draga átti til baka umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið með bréfi íslenskra stjórnvalda til sambandsins árið 2015 eða þeir hafa vísvitandi blekkt íslensku þjóðina.

Þetta segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á vefsíðu sinni í dag þar sem hann gerir umfjöllun mbl.is í gær, þar sem kom fram að Evrópusambandið og utanríkisráðuneytið væru samhljóða um það að umsóknin hefði ekki verið dregin til baka í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem var við völd 2013-2016.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hari

Fram kom í bréfi stjórnvalda til Evrópusambandsins að ekki bæri lengur að líta á Ísland sem „candidate country“ sem þýtt var sem umsóknarríki í þýðingu utanríkisráðuneytisins á bréfinu og lýstu forystumenn þáverandi ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins því yfir að þar með hefði umsóknin um inngöngu í sambandið verið dregin til baka.

Hins vegar kemur fram í umfjöllun mbl.is að umsóknarferlið geri ráð fyrir að ríki sé „applicant country“, þ.e. umsóknarríki, frá því að umsókn um inngöngu í Evrópusambandið er send og hún er samþykkt af ráðherraráði sambandsins. Þar með verði ríki „candidate country“. Fyrir vikið hafi Ísland í raun aðeins færst afturábak í umsóknarferlinu á fyrra stig þess.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þess vegna hlýtur það að vera skýlaus krafa að oddvitar stjórnarflokkanna tveggja á þeim tíma upplýsi hvort hér var á ferð, þekkingarleysi þeirra sjálfra eða vísvitandi blekking,“ segir Styrmir og vísar þar til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar sem voru forsætisráðherra og fjármálaráðherra í ríkisstjórninni sem sendi umrætt bréf.

Ennfremur segir Styrmir að jafnframt sé kominn tími til þess að núverandi stjórnarflokkar, Vinstrihreyfingin - grænt framboð, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, „snúi sér að formlegri afturköllun umsóknarinnar,“ en flokkarnir þrír hafa allir þá stefnu að Ísland skuli standa utan Evrópusambandsins. Su afstaða er einnig hluti af stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina