16 ára á 120 með mömmu í farþegasætinu

mbl.is/Arnþór Birkisson

Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði 16 ára dreng á tæplega 120 km hraða skammt austan við Vík síðastliðinn laugardag. Var móðir drengsins í farþegasætinu og ungt barn í aftursætinu, að því er fram kemur í Facebook-færslu lögreglunnar.

„Móðirin gaf þá skýringu að drengurinn væri í æfingaakstri en móðirin gat ekki framvísað neinum pappírum því til staðfestingar. Þá voru engar merkingar um æfingaakstur á bifreiðinni.“

Greiddi móðirin hraðasektina á staðnum og var gert að taka við akstri bifreiðarinnar. Um það bil fjórum klukkustundum síðar var sami bíll hins vegar stöðvaður aftur skammt vestan við Vík og var drengurinn þá aftur sestur við stýrið.

„Í þetta skiptið var móðirin kærð fyrir að vera ekki með ökuskírteini meðferðis, geta ekki framvísað gögnum sem sýna fram á æfingaakstur drengsins og fyrir að vera ekki með æfingaakstursmerki á bifreiðinni,“ segir í færslunni.

Alls var annars 41 ökumaður kærður fyrir hraðakstur á varðsvæði Víkur og Kirkjubæjarklausturs um helgina og voru þeir sem hraðast óku á tæplega 140 km hraða.

Alls hljóðaði posauppgjör lögreglunnar á þessu svæði upp á samtals 2.250.000 kr. eftir helgina og var það fyrir utan þá sem ekki gátu greitt á staðnum.

mbl.is