Áfrýjar dómi fyrir brot gegn dætrum

Maðurinn var dæmdur í 6 ára fangelsi fyrir brot gegn …
Maðurinn var dæmdur í 6 ára fangelsi fyrir brot gegn dóttur sinni og stjúpdóttur, en hefur áfrýjað dóminum til Landsréttar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður sem var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni og dóttur í Héraðsdómi Reykjaness í apríl hefur áfrýjað 6 ára dómi sínum til Landsréttar.

Þetta staðfestir Sigríður Friðjónsdóttur ríkissaksóknari við mbl.is, en fyrst var greint frá áfrýjuninni á vef RÚV. Sigríður staðfestir einnig að eiginkona mannsins, sem hlaut fimm ára dóm í málinu, hafi enn ekki áfrýjað, en frestur til þess rennur út 24. maí.

Hjónin hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því að dómur var kveðinn upp 24. apríl síðastliðinn. Ákvörðun var tekin um það að birta héraðsdóminn ekki á vef dómstólsins, til þess að hlífa brotaþola í málinu.

Við þing­fest­ingu máls­ins í októ­ber játuðu hjón­in brot sín að hluta, en í ákæru kom fram að þau hefðu brotið kyn­ferðis­lega gegn dótt­ur kon­unn­ar í sam­ein­ingu í fe­brú­ar í fyrra og tekið bæði hreyfi- og ljós­mynd­ir af brot­un­um. Dótt­ur kon­unn­ar voru dæmd­ar 2,5 millj­ón­ir króna í miska­bæt­ur.

Hjón­in voru sögð hafa framið brot­in að dótt­ur sinni viðstaddri, þannig að hún horfði á for­eldra sína brjóta gegn hálf­syst­ur sinni. Með því voru hjón­in sögð hafa ógnað vel­ferð stúlk­unn­ar á al­var­leg­an hátt.

Maður­inn var einnig ákærður fyr­ir að hafa í vörslu sinni á heim­ili fjöl­skyld­unn­ar 807 ljós­mynd­ir og 29 mynd­skeið sem sýndu börn­in á kyn­ferðis­leg­an hátt.

Einnig var hann ákærður fyr­ir brot á vopna­lög­um þar sem á heim­ili hjón­anna fannst mikið af eggvopn­um, meðal ann­ars 50 senti­metra langt sverð, butterfly-hníf­ur, tveir stungu­hníf­ar, kast­hníf­ur og slöngu­byssa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert