Breytt fjölmiðlafrumvarp lagt fram

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun mæla fyrir frumvarpinu …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun mæla fyrir frumvarpinu á yfirstandandi þingi. mbl.is/Hari

Fjölmiðlafrumvarp Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur verið lagt fram á Alþingi. Ráðherra mun mæla fyrir frumvarpinu á yfirstandandi þingi. Frumvarpið er að nokkru frábrugðið frumdrögum þess á fyrri stigum málsins.

Í frumvarpinu er lagt til að fjölmiðlar fái 25% af launakostnaði við rekstur ritstjórnar endurgreiddan úr ríkissjóði en að sú endurgreiðsla muni aldrei nema meiru en 50 milljónum. Þá verður sérstök reglugerðarheimild í frumvarpinu „þess efnis að veita megi staðbundnum fjölmiðlum viðbótar endurgreiðslu,“ segir í tilkynningu um málið.

Stærri fjölmiðlar hafa í umsögnum sínum við frumvarpið gagnrýnt bæði 50 milljón króna þakið og ójafna samkeppnisstöðu við Ríkisútvarpið.

Minni fjölmiðlar hafa sumir bent á að gengið sé framhjá þeim í fyrirætluðum stuðningi við fjölmiðla, sumir vegna krafna í endurgreiðsluskilyrðum um víðtæk efnistök.

Í frumvarpinu sem nú verður lagt fram hefur til tilbreytingar frá frumdrögum frumvarpsins verið bætt við ákvæði um 5,15% viðbótarendurgreiðslu til fjölmiðla, sem mun ekki vera háð takmörkum. Það er sagt gert til að „draga úr áhrifum þess ákvæðis er kveður á um að endurgreiðslur nemi ekki hærri fjárhæð en 50 milljónum króna.“ Þessar viðbótarendurgreiðslur munu þó aðeins nema 5,15% af þeim launakostnaði sem fer til starfsmanna í lægra skattþrepi.

Þá er nefnt í frumvarpinu að samningur ráðuneytisins við RÚV renni út í árslok 2019 og að stefnt sé að því athuga fyrir þann tíma „hvort breyta skuli tekjuuppbyggingu Ríkisútvarpsins, þar á meðal hvort draga skuli úr umsvifum þess á auglýsingamarkaði eða að fjármögnun starfseminnar verði einungis byggð á opinberum fjármunum.“

Komin er fram gagnrýni á frumvarpið á samfélagsmiðlum af hálfu framkvæmdastjóra Fotbolta.net. Forsvarsmenn þess miðils hafa áður gagnrýnt að vegna stöðu sinnar sem smámiðils fá þeir lítið fyrir sinn snúð með tilkomu frumvarpsins. Hafliði Breiðfjörð framkvæmdastjórinn segir á Twitter að ekki hafi verið orðið við umsögnum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert