Ein málsástæðna Sigurjóns nóg

Sigurjón Þorvaldur Árnason í héraðsdómi fyrir fimm árum.
Sigurjón Þorvaldur Árnason í héraðsdómi fyrir fimm árum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Einungis er tekin afstaða til einnar af mörgum málsástæðum sem endurupptökubeiðandinn Sigurjón Þorvaldur Árnason teflir fram í beiðnum hans um endurupptöku vegna hæstaréttarmála sem hann var dæmdur í í október 2015 og febrúar 2016. 

Í málunum var Sigurjón ásamt öðrum m.a. dæmdur fyrir markaðsmisnotkun. Þá var hann einnig dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa brotið gegn 249.gr almennra hegningarlaga, sem kveður á um að það geti varðað fangelsisrefsingu ef maður, sem hefur fengið aðstöðu til þess að gera eitthvað sem annar maður verður bundinn við eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína. 

Í síðustu viku, þann 12.maí, féllst endurupptökunefnd á endurupptökubeiðnir Sigurjóns í ofannefndum málum.

Tefldi fram fjölda ástæðna

Eins og áður segir teflir Sigurjón ýmsum málsástæðum fram til stuðningi rétti hans til endurupptöku. Í úrskurði um fyrra málið segir m.a. að Sigurjón byggi endurupptökubeiðni sína á því að komin séu fram ný gögn sem hrindi niðurstöðu Hæstaréttar um sekt hans. Þá hafi dómstólar brotið gegn grunnreglu sakamálaréttarfars um að sérhver maður skuli talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, og að búin hafi verið til ný og áður óþekkt viðmið í refsirétti varðandi það hvenær aðili misnoti aðstöðu sína eða umboð í skilningi áðurnefndrar 249.gr almennra hegningarlaga. 

Niðurstaða endurupptökunefndar veit þó á engan hátt að ofannefndum ástæðum, heldur byggist einungis á þeirri staðreynd að Viðar Már Matthíasson, Hæstaréttardómari og einn dómara í málinu, hafi átt hlutabréf í Landsbankanum á þeim tíma sem meint brot áttu sér stað, og hafi því verið vanhæfur í málinu. Það ber að taka fram að endurupptökunefndin slær því ekki föstu hvort hagsmunir Viðars Más hafi haft áhrif á dómsniðurstöðu, en byggir niðurstöðuna á því að atvik og aðstæður valdi því að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa. Því til grundvallar nefnir nefndin m.a. að Viðar Már hafi keypt hlutabréf í Landsbankanum, hverra verðmæti námu tæplega fimmtán milljón króna, en miðað við síðasta skráða gengi bréfanna, þann 3. október 2008, hafi verðmæti þeirra numið um átta og hálfrar milljónar króna. „Telja verður að þeir fjármunir sem fóru forgörðum hjá dómaranum hafi verið slíkir að atvik eða aðstæður voru til að draga óhlutdrægni dómstólsins með réttu í efa“ segir m.a. í úrskurðinum.

Ekki tekin afstaða um Eirík

Athygli vekur að ekki er tekin afstaða til sama álitaefnis í máli Eiríks Tómassonar, þáverandi Hæstaréttardómara, sem einnig átti hlutabréf í Landsbankanum, þó þau hafi verið umtalsvert verðminni en hlutir Viðars Más.

Í úrskurðinum er m.a. vísað til þeirra skilyrða sem lög um meðferð sakamála setja fyrir endurupptöku og segir í lokaorðum niðurstöðukafla úrskurðarins að þar sem eitt skilyrðanna teljist uppfyllt gerist ekki þörf á að fjalla um meint vanhæfi annarra dómara málsins eða aðrar málsástæður endurupptökubeiðanda. 

Eins og áður segir var endurupptökubeiðni Sigurjóns samþykkt á ofannefndum grundvelli. Ekki hefur náðst í Sigurjón vegna málsins. Þá hefur Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, ekki viljað tjá sig um málið. 

mbl.is