Endurupptökubeiðnin hefur verið send

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra dómsmála.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra dómsmála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska ríkið hefur sent yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) beiðni um að Landsréttarmálið svokallaða verði endurskoðað. Ekki verður gripið til frekari aðgerða í málinu fyrr en niðurstaða liggur fyrir um hvort yfirdeild MDE taki málið upp að nýju.

Þetta kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur dómsmálaráðherra við sérstaka umræðu um stöðu Landsréttar á Alþingi fyrr í dag. 

Vissu ekki að beiðnin hefði verið send

Málshefjandi var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sem spurði m.a. hvenær ætti að senda beiðni um endurskoðun til yfirdeildar MDE, og hvað ætti til bragðs að taka ef yfirdeildin tæki málið ekki fyrir. Eins og áður segir svaraði dómsmálaráðherra á þá leið að beiðnin hefði þegar verið send út, og ítrekaði að Hæstiréttur Íslands hefði þegar dæmt skipan allra dómara Landsréttar lögmæta. Hæstiréttur Íslands væri æðsti dómstóll landsins og það væri ekki á valdi framkvæmdavaldshafa að víkja dómurum úr embætti, enda yrði þeim einungis vikið úr embætti með dómi, eins og stjórnarskrá kveður á um. 

Þá sagði hún að ógerlegt væri að útlista viðbrögð við dómi sem ekki væri fallinn eða við endurskoðun sem ekki væri samþykkt. 

Fleiri tóku til máls í umræðunni og var þingmönnum m.a. tíðrætt um fordæmisgildi dóma MDE fyrir réttarskipan á Íslandi. Sem dæmi fór Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks, tvisvar upp í ræðustól þar sem hann hnykkti á því að dómar MDE væru ekki bindandi að Landsrétti, og að Hæstiréttur hefði dæmt skipan Landsréttardómaranna fimmtán lögmæta. 

Embættisverk beggja dómsmálaráðherra, þ.e. núverandi og fyrrverandi, voru gagnrýnd á …
Embættisverk beggja dómsmálaráðherra, þ.e. núverandi og fyrrverandi, voru gagnrýnd á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Málið spyr ekki um stjórn eða stjórnarandstöðu

Aðrir, eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, bentu á að ekki væri æskilegt að tala niður MDE og hvatti hún dómsmálaráðherra til að vera í samráði við alla flokka við meðferð málsins. Mikilvægi þessa máls væri slíkt að það spyrði ekki um stjórn eða stjórnarandstöðu. 

Næstsíðast tók málshefjandinn Þórhildur Sunna aftur til máls og gagnrýndi m.a. svör dómsmálaráðherra, og sagði það eitt skýrt mega ráða af þeim að dómsmálaráðherra ætlaði ekki að gera neitt í málinu.

Dómsmálaráðherrann Þórdís Kolbrún lauk svo umræðunni, og sagði að það væri allt í lagi að hafa þá skoðun að hún sýndi mikið ábyrgðarleysi, hún væri hins vegar algjörlega ósammála þeirri skoðun. Það fælist líka ábyrgð í því að bíða með aðgerðir á þar til niðurstaða yfirdeildar lægi fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert