Hatarar spenntir að snúa heim

Felix hefur staðið í ströngu síðastliðna daga við að stýra …
Felix hefur staðið í ströngu síðastliðna daga við að stýra för íslenska Eurovision-hópsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenski Eurovision-hópurinn er lentur á Heathrow-flugvelli og bíður þess í ofvæni að taka flugið heim til Íslands, segir Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins, í samtali við mbl.is. Hann segir að ferðin hafi hingað til gengið vel, en að allir í hópnum séu spenntir að snerta íslenska grundu á ný og komast til síns heima.

Spurður hvort sætin sem Höturum var úthlutað hafi verið þeim jafn óþægileg og starfsmenn flugfélagsins El Al óskuðu sér segir Felix svo ekki hafa verið, en það hafi vakið meiri ugg að flugnúmer og sætanúmer liðsmanna sveitarinnar hafi verið birt á Facebook áður en flugið fór af stað. Það hljóti að vera brot á einhverjum reglum og verði skoðað. 

Ekkert húllumhæ skipulagt

Áætlað er að íslenski hópurinn lendi á Keflavíkurflugvelli um klukkan 23.00 í kvöld. Spurður hvort eitthvað húllumhæ hafi verið skipulagt við komuna segist Felix ekki vita til þess, og ekki búast sérstaklega við því. Hópurinn sé, eins og áður segir, bara spenntur að komast heim. 

Aðspurður segist Felix ekki vita neitt meira um viðbrögð framkvæmdastjórnar Eurovision við fánaveifi Hatara í sjónvarpsútsendingu keppninnar á laugardagskvöld. „Þau hafa ekki skrifað okkur sérstaklega. Við vitum í raun ekkert meira en það sem við lesum í fjölmiðlum,“ segir fararstjórinn Felix.

mbl.is