„Kemur verulega á óvart“

Eva Rún Snorradóttir hlaut Maístjörnuna fyrir ljóðabókina Fræ sem frjóvga …
Eva Rún Snorradóttir hlaut Maístjörnuna fyrir ljóðabókina Fræ sem frjóvga myrkrið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta kemur mér verulega á óvart. Mér fannst mjög skemmtilegt að vera tilnefnd, en átti alls ekki von á því að vinna enda flottar bækur tilnefndar til verðlaunanna í ár – sem helgast af því að 2018 var mjög sterkt ljóðaár, “ segir Eva Rún Snorradóttir sem fyrr í dag hlaut Maístjörnuna, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, þegar þau voru veitt í þriðja sinn við hátíðlega athöfn. 

<span><br/></span><div>Verðlaunin hlaut hún fyrir ljóðabókina Fræ sem frjóvga myrkrið. Auk hennar voru tilnefnd Ásdís Ingólfsdóttir fyrir Ódauðleg brjóst; Gerður Kristný fyrir Sálumessu; Haukur Ingvarsson fyrir Vistarverur; Linda Vilhjálmsdóttir fyrir Smáa letrið og Sigfús Bjartmarsson fyrir Homo economicus I.</div>

Frumleg og fjölbreytt ljóðabók

<div>Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru eingöngu fyrir útgefna íslenska ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að hvetja skáld til að yrkja og koma ljóðum sínum í útgáfu. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur. Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2018 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd, sem skipuð er Sveini Yngva Egilssyni og Evu Kamillu Einarsdóttur, þær til umfjöllunar.<span> </span></div>

Í umsögn dómnefndar segir: „Fræ sem frjóvga myrkrið er frumleg og fjölbreytt ljóðabók þar sem skáldið Eva Rún bregður á leik með ýmis form, allt frá örleikritum til prósaljóða. Fyrri hluti bókarinnar er margradda lýsing á ferð vinkvenna til sólarlanda sem reynist í senn nöturleg og fyndin. Síðari hlutinn er einlægari og myndrænni og þar eru ljóð sem lýsa vináttu, sársauka, sjálfsuppgötvun og annarlegum heimi á áleitinn hátt.“

Ljóðið margrætt verkfæri

<div>„Þessi bók var tilraun til að heila visst samfélagsmein, tráma kvenna minnar kynslóðar. Verðlaunin eru ákveðin staðfesting á því að það markmið mitt hafi tekist. Þegar ég hóf þetta verkefni vissi ég ekki að ljóð gæti hentað sem verkfæri til að takast á við svona uppsafnað myrkur sem legið hefur í þögn. Ljóðið er svo ótrúlega margrætt verkfæri, næmt og öflugt,“ segir Eva Rún, sem áður hefur sent frá sér tvær ljóðabækur.<span> Nánar er rætt við Evu Rún í Morgunblaðinu á morgun. </span></div>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert