Lögregla rannsakar eldsupptök í Sóleyju

Rækjutogarinn Sóley Sigurjóns við bryggju á Akureyri.
Rækjutogarinn Sóley Sigurjóns við bryggju á Akureyri. mbl.is/Þorgeir

Lögregla fór í síðdegis í gær um borð í rækjutogarann Sóleyju Sigurjóns til að skoða upptök elds sem kom upp í skipinu á föstudagskvöld. Skipið kom að bryggju á Akureyri síðdegis í gær.

Málið er nú í rannsókn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra og sagði lögregla í samtali við mbl.is fyrstu skoðun benda til þess að eldurinn hafi verið í rafmagnstöflu í vélarrúmi skipsins, líkt og áður hefur komið fram. Ekki liggi þó enn fyrir hvað olli eldinum, en búið er að afhenda tryggingafélagi útgerðarinnar skipið.

Finn­ur Sig­ur­björns­son, skip­stjóri á tog­ar­an­um Múla­bergi SI-22, sem tók Sóleyju í tog sagði við mbl.is á laugardag að búnaður um borð sé mjög illa far­inn. „Allt í vél­ar­rúm­inu er óvirkt,“ sagði hann. „Það eru þrjár raf­magn­stöfl­ur brunn­ar og þetta virðist vera mikið tjón. Inni virðist hafa brunnið allt sem brunnið get­ur.“

Rækjutogarinn Sól­ey var um 95 sjó­míl­ur norður af landi þegar eld­ur­inn kom upp í vél­ar­rúm­inu á föstudagskvöld. Múla­berg var 25 sjó­míl­ur frá og hélt rak­leiðis í átt að Sól­eyju og dró skipið um 90 sjó­míl­ur. Sótt­ist sá drátt­ur hálf­sein­lega, enda troll Sól­eyj­ar í eft­ir­dragi lung­ann úr ferðinni. 

mbl.is