Heildarlosun frá flugi allt að þrefalt meiri

Heildarlosun vegna iðnaðar í Evrópu fer minnkandi, en losun vegna …
Heildarlosun vegna iðnaðar í Evrópu fer minnkandi, en losun vegna flugsins er enn í vexti. mbl.is/RAX

Heildarlosun hjá íslenskum flugrekendum er líklega tvisvar til þrisvar sinnum hærri en þau rúm 820 þúsund tonn koltvísýringsígilda sem gerð hafa verið upp fyrir flug innan EES ríkja á síðasta ári. Þetta segir Margrét Helga Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun á sviði loftslagsmála og græns samfélags.

Umhverfisstofnun birti í morgun tölur síðasta árs fyrir losun íslenskra flugrekenda og íslensks iðnaðar. Þær tölur sýna að losunin hélt áfram að aukast í fyrra og var heildarlosun í flugi sem fellur undir kerfið 820.369 tonn koltvísýringsígilda og losun frá iðnaði 1.854.715 tonn. Í báðum tilfellum var um aukningu að ræða milli ára.

Býst við aukinni losun frá iðnaði á næsta ári

Margrét Helga segir ekkert í þessum tölum koma Umhverfisstofnun á óvart. „Iðnaðurinn er nokkuð stöðugur og ástæðan fyrir aukningunni í fyrra er sú að það var að koma nýtt fyrirtæki á markað. Margrét Helga vísar þar til PCC á Bakka sem hóf rekstur á síðasta ári. „Þannig að ég geri ráð fyrir að fyrir árið 2019 verði aukningin meiri, því þá verður PCC búið að vera í fullum gangi í heilt ár.“ Margrét Helga samsinnir því að losunin 2018 hefði væntanlega verið enn meiri í fyrra ef kísilver United Silcon hefði ekki orðið gjaldþrota í byrjun þess árs.

Sú losun sem gerð er upp vegna flugsins á eingöngu við um flug innan EES svæðisins og tekur því ekki á heildarlosunar flestra flugrekenda, þar sem t.d. Ameríkuflug er ekki innan gildissviðs kerfisins eins og er. Margrét Helga segir af þessu sökum geta verið erfitt að meta flugið, þar sem heildarlosunartala liggi ekki fyrir.

Spurð hversu miklu hærri hún telji þó heildarlosunina vera segir hún: „Ég geri ráð fyrir að  það megi vel tvö- til þrefalda hana til að fá heildarlosunina.“

Verður sett stjórnvaldsekt á WOW air?

Þeirra hækkunar verði líka vart þegar nýtt losunarkerfi Corsia (Carbon Offsetting and Reduction Scheme for International Aviation) verður tekið í gagnið árið 2021. „Þá náum við heildarlosuninni og þá verðum við loks með betri upplýsingar um heildarlosun hjá íslenskum flugrekendum,“ segir Margrét Helga, en kerfinu er ætlað að taka á koltvísýringslosun í öllu millilandaflugi.

Íslenskir flugrekendur eru að hennar sögn þegar byrjaðir að vakta heildarfluglosun sína til að undirbúa að skila skýrslu um losun sína áður en kerfið fer í gang árið 2021.

Líkt og áður sagði þá var losun frá flugi íslenskra flugrekenda innan EES 820.369 tonn koltvísýrings ígilda í fyrra, einungis voru þó gerð upp 542.244 tonn þeirrar losunar. Flugfélagið WOW air, sem varð gjaldþrota í byrjun mars, var búið að skila inn losunarskýrslu en var ekki búið að gera upp losunina þegar það sigldi í strand.  Samkvæmt 43. grein laga um loftslagsmál á að setja stjórnvaldssekt  á þá sem gera ekki upp losun fyrir 20. apríl ár hvert og segir Margrét Helga það nú vera í vinnslu hjá Umhverfisstofnun hvernig þetta verði útfært. „Við munum þó fara eftir lögum í þessu,“ segir hún.

Losa vel flest umfram heimildir

Líkt og töflurnar sem fylgja með greininni og sem birtar voru með frétt Umhverfisstofnunnar  sýna þá virðast fyrirtæki í iðnaði vel flest, ef ekki öll, losa umfram heimildir. Þannig er Elkem með losunarheimild upp á tæp 260.000 tonn, en losar um 400.000 tonn.  Alcoa er með um 450.000 tonna heimild, en losar um 550.000 tonn, Rio Tinto Alcan er með 250.000 tonna heimild en losar um 320.000 tonn og Norðurál losar um 500.000 tonn en er með um 360.000 tonna heimild.

Margrét Helga segir Umhverfisstofnun vissulega vilja sá þessar tölur fara niður á við, en svo virðist sem iðnaður hér á landi standi mikið til í stað. „Ef við skoðum hins vegar Evrópu þá er losunin þar að fara niður í iðnaði,“ segir hún. „Heildarlosun í ETS kerfinu fyrir árið 2018 lækkaði um 3,5% en flughlutinn jókst á móti um 5%.“

Hún bendir á að þegar tafla Umhverfisstofnunnar fyrir flugrekendur er skoðuð megi sjá að einungis einn flugrekandi hér á landi hafi dregið úr losun í fyrra. „Og það er Icelandair“, segir Margrét Helga.  Eina ástæða þess sé hins vegar fækkun flugferða.

Kísilver PCC Bakki Silicon við Húsavík. Margrét Helga býst við …
Kísilver PCC Bakki Silicon við Húsavík. Margrét Helga býst við aukinni losun frá iðnaði á þessu ári vegna kísilversins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Losunartonnið komið úr 4 evrum í 27

Erfiðara er að draga úr losun frá flugi en losun á landi og tekur lengri tíma. Umhverfisstofnun vildi þó vissulega sjá iðnaðinn draga meira úr losun hjá sér. „Þeir vilja þó meina að þeir séu með öll bestu tæki sem þeir hafa til að draga úr,“ segir Margrét Helga.

2019 verður engu að síður líklega aukningu úr losun frá iðnaði hér á landi. Samdráttur gæti hins vegar orðið í losun frá fluginu vegna gjaldþrots WOW air. „Ef við miðum við stöðuna núna, þá gæti flugið vera ca. 300.000 tonnum minna á þessu ári, en hvort að sú losun eigi eftir að koma fram í aukningu hjá einhverjum öðrum flugrekendum það eigum við eftir að sjá,“ bætir hún við.

Losunarkvótar hafa líka hækkað all verulega í verði undanfarin tvö ár, en sömu heimildir EEA eininga eru keyptar fyrir bæði flug og iðnað. Þannig var verðið á tonninu komið upp í 25-27 evrur á þeim tíma sem síðasta uppgjör var unnið. Í fyrra kostaði tonnið í kringum 12-13 og fyrir tveimur árum var það 4-5 evrur. „Þannig að ég geri ráð fyrir að þeir séu farnir að finna aðeins fyrir þessu núna,“ segir Margrét Helga.

mbl.is

Bloggað um fréttina