Sigur Rósar-menn fara fram á frávísun

Liðsmenn Sigur Rósar fara fram á að máli þeirra verði …
Liðsmenn Sigur Rósar fara fram á að máli þeirra verði vísað frá á grundvelli mannréttindasjónarmiða. mbl.is/Eggert

Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður núverandi og fyrrverandi liðsmanna Sigur Rósar og endurskoðanda hljómsveitarinnar, lagði í dag fram frávísunarkröfu, við fyrirtöku máls er varðar meint skattsvik sveitarinnar í Héraðsdómi Reykjavíkur.

„Það er á grundvelli mannréttindasjónarmiða, við segjum að þetta sé brot á reglunum um tvöfalda málsmeðferð,“ sagði Bjarnfreður við fjölmiðla eftir fyrirtökuna. 

Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. september næstkomandi, en málið er höfðað gegn tónlistarmönnunum Orra Páli Dýrasyni, Kjartani Sveinssyni, Georgi Hólm og Jóni Þór Birgissyni, auk endurskoðanda sveitarinnar Gunnari Þór Ásgeirssyni.

„Það er búið að úrskurða á þá refsingu, beitingu álags hjá ríkisskattstjóra og þeir eru búnir að standa í þessum málaferlum eða þessu stappi í mörg, mörg ár. Málið hófst fyrst hjá skattrannsóknarstjóra þar sem þeir voru með réttarstöðu sakbornings og síðan var málið flutt aftur til tveggja annarra stofnana, annars vegar til ríkisskattstjóra þar sem að þessi refsing var svo ákveðin. Síðan fór málið í þann farveg að fara til saksóknara líka og allt er þetta sama málið. Það er bara galli, því miður, á þessu réttarfari hér á landi, því miður,“ sagði Bjarnfreður.

Bjarnfreður Ólafsson, verjandi sveitarinnar. Mynd úr safni.
Bjarnfreður Ólafsson, verjandi sveitarinnar. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Hann bætti við því að ef svo færi að íslenskir dómstólar myndu ekki fallast á frávísunarkröfuna yrði málinu „alveg klárlega“ skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), sem hefur á undanförnum árum kveðið upp nokkra dóma í sambærilegum málum.

Fyrir röskum mánuði síðan kvað MDE upp dóm í máli Bjarna Ármannssonar kaupsýslumanns gegn íslenska ríkinu og hliðstæður dómur var einnig kveðinn upp árið 2017 í máli athafnamannsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn ríkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert