Spyr hvort þvinga eigi orkupakkann í gegn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði hvort breyting á dagskrá …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði hvort breyting á dagskrá þingsins væri leið stjórnarmeirihlutans til að þvinga orkupakkamálið í gegnum þingið, eftir að umræða um útlendinga sem átti að fara fram á undan umræðu um orkapakkann var frestað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar furðuðu sig á því að umræða um útlendinga og lagafrumvarp dómsmálaráðherra um alþjóðlega vernd og brottvísunartilskipun hafi verið tekið af dagskrá þingfundar, einungis rúmum klukkutíma eftir að greidd voru atkvæði um dagskrá þingfundar.

Bergþór Ólafsson, þingmaður Miðflokksins, vakti athygli á þessu í umræðum um  fundarstörf forseta.

Nú er hafin framhald á næsta dagskrárlið, síðari umræðu um þriðja pakkann, en líklegt verður að teljast að einhverjir þingmenn hafi ætlað að nýta tímann á undan til undirbúnings fyrir lokaumræðuna um þriðja orkupakkann.

Sigmundur Davíð spurði hvort breyting á dagskrá þingsins væri leið stjórnarmeirihlutans til að „þvinga orkupakkamálið hér í gegnum þingið án þess að það fái tilhlýðilega skoðun?“ 

„Að minnsta kosti er þetta mjög, mjög óhefðbundið,“ sagði formaður Miðflokksins.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti furðu sinni yfir því af hverju þingmenn Miðflokksins væru ekki „hoppandi sælir“ með að byrja umræðu um orkupakkann strax?

Framhald síðari umræðu um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á fjórða viðauka við EES-samninginn, það er þriðja orkupakkann, hófst á Alþingi á sjötta tímanum og búast má við að umræðan standi langt fram á kvöld, ef ekki lengur.

Tíu eru á mælendaskrá, þar á meðal Sigmundur Davíð sem mun flytja sína fimmtu ræðu um þriðja orkupakkann. Hér má fylgjast með þingfundi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert