Telur þátttökubann ólíkleg viðurlög

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segist skilja Hatara að mörgu leyti …
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segist skilja Hatara að mörgu leyti fyrir uppátækið og kveður það ekki hafa komið sér neitt gríðarlega á óvart. mbl.is/Þórður

„Okkur hefur ekki borist neitt frá EBU (samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva) og sjáum til hvort svo verður,“ sagði Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri í Morgunþættinum á Rás 2 í morgun um mögulega eftirmála þess að nokkrir liðsmenn Hatara hafi haldið á lofti borðum með palestínska fánanum í útsendingu frá stigagjöf Eurovision.

Spurður hvort hann telji möguleg viðurlög geta falið í sér að Íslandi yrði meinuð þátttaka í keppninni á næsta ári, sagðist hann telja  „óeðlilegt og undarlegt“ ef viðurlögin yrðu svo mikil.

Magnús Geir sagði aðstæður óneitanlega hafa verið sérstakar og listamennirnir hafi tekið þessa ákvörðun í hita leiksins. Þá minnti hann á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem fánum annarra þjóða en þeirra sem taki þátt hafi verið veifað í Eurovision. Þannig hafi samíski fáninn til að mynda sést undir framlagi Noregs í undankeppninni í síðustu viku.

„Mér þykir það mjög ólíklegt að það verði einhver slík viðurlög. Það er líklegra að það verði kannski gerð formleg athugasemd við þetta,“ sagði hann og ítrekaði að þetta væri bara hans vangaveltur.

Hatarar veifuðu borðum með palestínska fánanum og öll Evrópa fylgdist …
Hatarar veifuðu borðum með palestínska fánanum og öll Evrópa fylgdist með. Skjáskot/RÚV

Meðvituðuð um að þetta var ekki sykurhúðað framlag

Hann segir RÚV ekki hafa haft vitneskju um þá ætlun Hatara að hafa fánana á lofti, en RÚV sé heldur ekki búið að gera athugasemd við listamennina eftir keppnina vegna atburðarins. „Þetta var kannski hluti af þeirra plani, en þetta var ekki hluti af plani RÚV,“ sagði Magnús Geir.

„Við hins vegar erum alveg meðvituð um að þegar þjóðin valdi Hatara þá vitum við að við erum ekki að fara með sykurhúðað framlag. Þarna eru listamenn sem liggur mikið á hjarta og það er jú eðli listarinnar að spyrja áleitinna spurninga og velta upp nýjum flötum.“ Sjálft atriðið sé þess eðlis. „Það slær mann svolítið utan undir og það er auðvitað eldfimmt ástand á þessum slóðum og það er hlutverk listarinnar að  spyrja spurninga.“

Magnús Geir sagðist vera gríðarlega ánægður með framlag Íslands í …
Magnús Geir sagðist vera gríðarlega ánægður með framlag Íslands í Eurovision þetta árið og atriðið væri að hans mati eitt flottasta íslenska atriðið til þessa. AFP

Gríðarlega ánægður með framlag Íslands

Sjálfur sagðist Magnús Geir vera „gríðarlega ánægður“ með framlag Íslands þetta árið. „Mér finnst þetta eitt flottasta, ef ekki flottasta, framlag Íslands í keppnina til þessa,“ sagði hann. „Þetta er risastór listrænn gjörningur, listaverk sem gengur algjörlega upp á sínum forsendum. Mér finnst þetta vera flott sviðsett, flott á sviðinu, lagið flott og mér finnst framganga Hatara hafa verið verið virkilega flott í fjölmiðlum. Við höfum náð mikilli athygli. Þeir dansa á línunni og það er erfitt og krefjandi verkefni í þessum mikla sirkus sem Eurovision er.“

Kvaðst útvarpsstjóri skilja Hatara að mörgu leyti. „Ég get ekki sagt að það hafi komið mér gríðarlega á óvart,“ sagði hann um uppátækið.

Magnús Geir játaði hann hefði vissulega verið örlítið stressaður fyrir úrslitakvöldið. „Þegar maður tekur þátt í svona þá er maður ekkert rólegur, sérstaklega í þessu tilviki þegar þetta er svona eldfimt efni. Ég neita því ekki að ég var ekki pollrólegur þetta kvöld,“ sagði hann og bætti við að hann hefði verið ánægður að sjá er atriðinu var siglt í höfn þetta kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert