Trúir ekki á refsistefnu vegna skólaforðunar

Um 74% skóla­stjórn­enda telja for­eldra og ​for­sjáraðila hafa of rúm­ar …
Um 74% skóla­stjórn­enda telja for­eldra og ​for­sjáraðila hafa of rúm­ar heim­ild­ir til að fá leyfi frá skóla­sókn fyr­ir börn sín. Mynd úr safni. mbl.is/​Hari

Það er áhyggjuefni ef það eru fleiri börn sem eru að mæta verr í skóla af því að þá eru þau bara að missa úr mikilvæga menntun sem þau þurfa að fá. Það eru þó mismunandi ástæður sem liggja þar að baki, segir Hrefna Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri samtakanna Heimilis og skóla í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í gær á málþinginu Skóla­sókn – skóla­forðun að 79% skóla­stjórn­enda telji leyf­isósk­um for­eldra og for­sjáraðila vegna fría inn­an­lands og er­lend­is á skóla­tíma hafa fjölgað. Rúm 74% skóla­stjórn­enda telja for­eldra og ​for­sjáraðila hafa of rúm­ar heim­ild­ir til að fá leyfi frá skóla­sókn fyr­ir börn sín. Þá segjast tæp 79% skóla­stjórn­enda vera mjög hlynnt­ir eða frek­ar hlynnt­ir því að sett verði op­in­ber viðmið, t.d. fjölda daga um leyf­is­veit­ing­ar vegna fría á skóla­tíma. 

Hrefna segir að passa þurfi vel í umræðunni um skólaforðun  að blanda ekki saman umræðu um börn sem eru að kljást við félagslegar eða líkamalegar aðstæður sem geta leitt til þess að þau mæti illa, og barna sem eru mikið fjarri vegna fría á skólatíma. „Þetta eru gjörólíkar aðstæður og ástæður,“ segir hún.

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.
Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.

Ýmsar ástæður að baki leyfisbeiðnum

Fjölbreyttar ástæður geti engu að síður verið að baki þess að leyfi séu fengin fyrir börn vegna fría. „Við höfum heyrt í ýmsum foreldrum og sumir telja að það sé margt sem börn læra á því að fara í ferðalag með fjölskyldunni, á meðan að  skólayfirvöld segja betra að gera það þá þegar frí er í skólum ef  mögulegt er.“

Aðrir hafa bent á að þetta geti verið börn af erlendum uppruna sem séu að heimsækja heimalandið, oft til lengri tíma, og eins geti verið um að ræða einstæða foreldra sem reyna að nýta sér ódýrari fargjöld að hausti.

„Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að fólk er að óska eftir aukaleyfi utan skólafría,“ segir Hrefna en bendir um leið á að fram hafi komið í skýrslu Velferðarvaktarinnar að leyfisbeiðnum hafi fjölgaði fyrir hrun, þær hafi svo minnkað aftur eftir hrun en sé nú að fjölga á ný.

Ójöfnuður að aukast í skólum

„Þannig að fólk hefur greinilega meira efni á að fara eitthvað og þá spyr maður sig út í stéttaskiptingu í skólum,“ segir Hrefna. Nýjar rannsóknir sýni að ójöfnuður í skólum sé að aukast. „Fólk verður líka að horfa á þetta í samhengi. Það eru sum börn sem eru þá miklu oftar í leyfum en önnur.“

Ákveðið frelsi sé vissulega fólgið í því að fara í frí, en að sama skapi sé verið að skerða frelsi barna til að fá þá menntun sem þau þurfa ef þau missa mikið úr námi vegna leyfa.

Hrefna bendir á að Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður Heimilis og skóla hafi varpað fram þeirri spurningu  á málþinginu hvort horfa ætti meira til Norðurlandanna varðandi skólafrí, en þar tíðkast viku vetrarfrí á hvorri önn. „Þá gæfist fjölskyldum svigrúm til að fara í frí,“ segir Hefna. Á sama tíma yrði þó að bjóða upp á raunverulega valkostir, eins og t.d. áhugaverð námskeið fyrir þau börn sem ekki hefðu kost á að fara í frí. 

Virðing þarf að virka á báða vegu

Fram kom í könnuninni að 46,6% skólastjórnenda voru þeirrar skoðunar að fríin kæmu mikið eða fremur mikið niður á námi, en foreldrar telji leyfin styrkja barnið. Hrefna samsinnir því að þarna sé mikill munur á skoðunum.

„Skoðun er þó eitt, en svo mætti líka skoða námsárangurinn og  sjá hvort þetta sé raunverulega að koma niður á námi barnanna. Þetta er bara ein könnun og ég geri ráð fyrir að þetta verði kannski kannað frekar í framhaldinu,“ segir hún. „Ég efa það ekki samt að skólastjórnendur eru að tala þarna af reynslu og á einlægan hátt. Þeir hafa örugglega vísbendingu um þetta og eflaust eru einhverjir foreldrar sem vilja kannski réttlæta ákvörðun sína.“

Sjálf segist hún þó ekki heldur efa það að börn geti lært heilmikið á því að fara í frí.  „Síðan hafa foreldrar líka bent á dæmi þess að kennarar séu fjarverandi vikum saman og börnin ekki endilega að fá kennslu á þeim tíma.“ Þetta sé eitthvað sem líka þurfi að horfa á. „Er forfallakennsla alltaf til staðar? Er virðing fyrir skólastarfinu í verki báðum megin?“ spyr hún.

Enginn einn leysi svona vanda og sjálf kveðst Hrefna ekki hafa trú á refsistefnu í þessu samhengi. Það þurfi þó vissulega að vera skýrar reglur og skýrir ferlar, en of langt sé gengið þegar farið er með svona mál fyrir dómstóla líkt og dæmi eru um í einhverjum nágrannalanda okkar

„Við erum þó ekki að hjálpa barninu með því að láta það missa of mikið úr námi. Skólinn er samfélag þar sem alls konar börn eru að hittast á hverjum degi og það kemur ákveðnu róti á hópinn ef það vantar oft ákveðna nemendur, eða þeir mæta bara þegar þeim sýnist. Þess vegna þurfum við líka að hugsa um að við erum hluti af heild og foreldrar verða að gera það líka og rísa undir þeirri ábyrgð.“

mbl.is