Áskorendaleikur í plokki gefst vel

Starfsmenn Skagafjarðarveitna létu ekki sitt eftir liggja í plokkinu #umhverfisdagar19
Starfsmenn Skagafjarðarveitna létu ekki sitt eftir liggja í plokkinu #umhverfisdagar19 Ljósmynd/Aðsend

Skagfirðingar hafa ekki látið sitt eftir liggja í að hreinsa umhverfi sitt og tína rusl í vor. Frá því Umhverfisdagar hófust 15. maí síðastliðinn í sveitarfélaginu Skagafirði hafa tugir fyrirtækja og félagasamtaka tekið þátt í áskorendaleik þar sem fólk skorar á hvert á annað að fara út og tína rusl. Myndunum af afrakstrinum hefur verið deilt á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #umhverfisdagar19.

„Það var komið að afmæli hjá okkur en það eru 30 ár frá því fyrstu Umhverfisdagarnir voru haldnir. Við vildum ná peppi í mannskapinn af því tilefni og því ákváðum við að hafa áskorendaleik,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar. 

Hann segir hreinsunarátakið hafa gengið vonum framar og að þátttakan hafi verið mjög góð hjá öllum aldurshópum.   

Fyrirtæki og stofnanir hafa verið öflug í að tína rusl eins og meðfylgjandi myndir sýna.


Sigfús segir mikla vitundarvakningu vera í umhverfismálum einkum er varðar sorp. Þess má geta að hægt er að fá svokallaðar pokastöðvar í nokkrum verslunum í sveitarfélaginu þar sem hægt er að fá lánaða margnota taupoka. Handlagnir einstaklingar saumuðu pokana til að sporna gegn plastpokanotkun í verslunum. 

Hirða rúlluplast og dýrahræ

Sigfús segir sveitarfélagið standa býsna vel er varðar flokkunarkerfi, einkum í þéttbýlinu. Fyrirtækið Flokka sér um að taka við úrgangi í sveitarfélaginu. „Við erum að móta stefnu fyrir dreifbýlið,“ segir hann. Plastið sem fellur til í sveitarfélaginu er flutt út til frekari endurvinnslu eða brennt. 

Einu sinni í mánuði sér sveitarfélagið um að hirða allt rúlluplast sem fellur til á sveitabæjum, bændum að kostnaðarlausu. Einnig er boðið upp á að hirða dýrahræ. „Það er hvati fyrir menn að skila frekar hræjum en grafa þau ef það þarf ekki að greiða fyrir það,“ segir Sigfús. Hann bendir á að sveitarfélagið bjóði upp á betri þjónustu en sum önnur sveitarfélög. Til að mynda þurfa bændur í Akrahreppi að greiða fyrir að láta farga dýrahræi.   

Á síðasta formlega degi Umhverfisdaga voru plöntur gróðursettar í Varmahlíð, Hofsósi og Sauðárkróki í tilefni áranna 30. Margir tóku þátt og nutu sín úti í vorinu. 

Ungir sem aldnir tóku þátt.
Ungir sem aldnir tóku þátt. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is