Bálfarir ríflega helmingur

Líkbrennsluofnar hafa verið í landinu frá árinu 1948, báðir í …
Líkbrennsluofnar hafa verið í landinu frá árinu 1948, báðir í Fossvogi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bálförum hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Nú eru um 53% útfara á höfuðborgarsvæðinu bálfarir. Lítið er um líkbrennslur á landsbyggðinni og því er hlutfall bálfara á landinu í heild um 38%.

Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma sem reka bálfararstofu landsins, rekur þessa þróun til nágrannalandanna. Bendir hann á að í Svíþjóð og Danmörku sé hlutfallið komið yfir 70%. Reiknar hann með að sama þróun verði hér og áætlar að hlutfall bálfara verði 70% á landsvísu eftir þrjátíu ár.

Þá telur hann að það hafi áhrif á ákvarðanir fólks að duftker taki minna pláss en kistur í kirkjugörðum. Hann tekur fram að bálfarir hafi á sínum tíma hafist í Englandi og Þýskalandi vegna heilbrigðissjónarmiða. Hann segir að þau rök eigi ekki við, engin sýkingarhætta sé í kirkjugörðum.

Eina bálstofa landsins er í Fossvogi og sinnir hún öllu landinu, eftir því sem óskað er. Þórsteinn telur að staðsetningin sé ástæða þess að lítið sé um líkbrennslu á landsbyggðinni. Það kunni að vefjast fyrir fólki að senda kisturnar með flutningabílum á milli landshluta.

Bálstofan í Fossvogi er orðin 70 ára og barn síns tíma. Til hefur staðið að byggja nýja bálstofu í Gufuneskirkjugarði með nýjum ofnum að viðbættri hreinsun eins og víða þekkist erlendis enda getur útblásturinn verið mengandi. „Það er orðið brýnt að huga að þessu. Ég sé þó ekki fram á að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma ráði við þetta einir heldur þurfi ríki og sveitarfélög að koma að,“ segir Þórsteinn. Hann segir þetta afar kostnaðarsamt verkefni, kostnaður við að koma upp nýjum ofnum með tilheyrandi byggingum gæti orðið á annan milljarð króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »