Endurupptöku hafnað af Hæstarétti

Jón Ásgeir Jóhannesson kaupsýslumaður.
Jón Ásgeir Jóhannesson kaupsýslumaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skattamáli íslenska ríkisins gegn þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni hefur verið vísað frá Hæstarétti, en dómur þess efnis var kveðinn upp í morgun. Með þeirri niðurstöðu var fallist á aðalkröfu ákæruvaldsins, en þeir Jón Ásgeir og Tryggvi kröfðust þess aðallega að ákæruliðum í málinu yrði vísað frá héraðsdómi.

Í niðurstöðu dómsins segir að í íslenskum lögum sé ekki að finna heimild til endurupptöku máls í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu við meðferð máls fyrir íslenskum dómstólum, við þær aðstæður sem uppi voru í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva.

Málið tengist skattalagabrotum Jóns Ásgeirs, Tryggva og Kristínar Jóhannesdóttur í tengslum við rekstur Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums. Þau þrjú voru dæmd árið 2012 til refsingar og greiðslu sekta og sakarkostnaðar, en áður hafði þeim verið gert að greiða sektir með úrskurði yfirskattanefndar á árinu 2007.

Jóns Ásgeir og Tryggvi lögðu svo íslenska ríkið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu árið 2017, en dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn þeim með því að refsa þeim tvisvar fyrir efnislega sömu brotin.

Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs (t.h.) mætir til aðalmeðferðar í …
Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs (t.h.) mætir til aðalmeðferðar í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur á sínum tíma. Árni Sæberg

Í kjöl­far niður­stöðu Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins sendi Jón Ásgeir er­indi til end­urupp­töku­nefnd­ar með beiðni um að mál hans frá 2012 yrði end­urupp­tekið og það samþykkti endurupptökunefnd í apríl í fyrra.

Dómur MDE veitir ekki rétt til að fá endurupptöku

Með dómi sínum í dag er Hæstirréttur að hafna ákvörðun endurupptökunefndar, en dómstóllinn hefur úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar.

Á vef Hæstaréttar, þar sem fjallað er sérstaklega um dóminn, segir að til þess hafi dómarar meðal annars vísað í að með aðild að mannréttindasáttmála Evrópu hafi samningsríki „ekki undirgengist þjóðréttarlega skuldbindingu um að tryggja þeim, sem Mannréttindadómstóll Evrópu telur að brotið hafi verið gegn við meðferð máls fyrir innlendum dómstóli, rétt til að fá málið endurupptekið.“

Bætt er við að hvergi sé „í íslenskum lögum mælt berum orðum fyrir um heimild til endurupptöku máls að gengnum dómi mannréttindadómstólsins. Endurupptaka yrði því ekki reist á beinni lagaheimild.“

Hæstiréttur segir að fyrir liggi að „óhlutdrægur og óháður dómstóll“ hafi komist að niðurstöðu í málinu og að í dóminum hafi verið sérstaklega fjallað um 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu og komist að þeirri niðurstöðu að meðferð málsins væri ekki í andstöðu við ákvæðið þannig að frávísun varðaði.

„Var málið tekið til meðferðar um sekt eða sýknu dómfelldu af háttsemi samkvæmt ákæru og að lögum komist að þeirri niðurstöðu að dómfelldu væru sekir um stórfelld brot gegn skattalögum og þar með almennum hegningarlögum,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Dómur Hæstaréttar í heild sinni 

mbl.is