Hatrið hvílist ekki lengi

Einar og hans menn þurfa ekki að hvíla lúin bein …
Einar og hans menn þurfa ekki að hvíla lúin bein í langan tíma. Tónleikaferðalagið hefst á fimmtudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það hljómar þreytt en þakklátt, trommugimpið sem ansar þegar blaðamaður mbl.is slær á þráðinn til Einars Stef, eins liðsmanna Hatara, nú rétt eftir hádegi. Íslenski Eurovision-hópurinn lenti á Keflavíkurflugvelli upp úr ellefu í gærkvöld, og hafði þá eytt ríflega tveimur vikum í Ísrael. „Það er mjög gott að vera kominn heim. Ég hef saknað dóttur minnar mikið,“ segir Einar sem hljómar allt í einu ekki eins ógnvekjandi og hann leit út fyrir að vera á stóra sviðinu í Tel Aviv um helgina. 

„Bara annað verkefni“

„Við litum alltaf á þetta sem verkefni. Hatari hefur tekið að sér mörg verkefni. Þó að þetta hafi nú verið gríðarlega stórt verkefni þá var þetta bara annað verkefni,“ segir Einar um nýfengna Eurovision-reynslu. Spurður hvernig það sé að komast úr karakter, líta um öxl og fá að skilja við verkefnið segir Einar sko ekkert slíkt vera í vændum „Við erum ekki að því. Við erum að gefa út lag núna á næstunni með tónlistarmanni sem býr í austur-Jerúsalem, heitir Bashar Murad, og erum að fara í tónlistarferð um landið,“ segir hann og blaðamaður undrast á orkunni í Hataramönnum þegar Einar tjáir honum að ferðalagið hefjist eftir tvo daga. Viðkomustaðirnir á ferðalaginu, sem hefur yfirskriftina Þjóðarskömm, eru fimm; Reykjavík, Akureyri, Ísafjörður, Reykjanesbær og Vestmannaeyjar. „Það er bara haldið áfram,“ segir Einar.

Feðgarnir Stefán Haukur Jóhannesson og Einar í banastuði í Tel …
Feðgarnir Stefán Haukur Jóhannesson og Einar í banastuði í Tel Aviv í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glansmyndin féll

Hann segir aðspurður það hafa komið sér mest á óvart við förina til Ísraels hvursu fáir keppendur hafi látið sig Ísraels-Palestínu deiluna varða eða tjáð sig um hana. „Mér fannst merkilegt hvað það voru fáir af þátttakendum sem voru að tjá sig um ástandið í þessu landi.“ Þá bætir hann við að einnig hafi honum þótt merkilegt hvað allt fór á annan endann þegar Hatari veifaði borða með fána Palestínuríkis í sjónvarpsútsendingu keppninnar á laugardagskvöld. „Það var búin að vera þessi samstaða. Allir að veifa fánum allt kvöldið en svo féll öll þessi glansmynd um leið og það var haldið á borðum með fjórum litum í græna herberginu. Mér fannst það mjög lýsandi hvað þetta var fljótt að taka algera U-beygju.“

Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan Hatari gaf það …
Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan Hatari gaf það fyrst út í vor að hatrið myndi sigra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halda sínu striki

Hataramenn hafa verið á allra landsmanna vörum og átt gríðarmiklum vinsældum að fagna eftir að þeir unnu söngvakeppni sjónvarpsins fyrr í vor og eru nú í uppáhaldi hjá ungum sem öldnum. En hefur Euro-ævintýrið breytt Hatara-hugmyndinni?

„Áheyrendahópurinn, og sá hópur sem við náum til með okkar skilaboðum, hefur auðvitað stækkað gríðarlega. Hatari hefur verið mjög „local“ hljómsveit, en er nú orðin mun alþjóðlegri,“ segir Einar og bætir við að fólk hvaðanæva að úr heiminum sýni Hatara nú áhuga. „Fólk er þá að spyrja okkur hvenær við ætlum að koma og spila í þeirra landi.“

Fleiri fjölmiðlar en mbl.is gerðu sér mat úr ævintýrum Hatara …
Fleiri fjölmiðlar en mbl.is gerðu sér mat úr ævintýrum Hatara í Tel Aviv, enda áhugaverður hópur þar á ferð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamaður spyr því hvort Hatarar ætli ekki að grípa gæsina meðan hún gefst og nýta sér skriðið sem sveitin er nú komin á. Einar hljómar þó rólegur og virðist þó ekki ætla að hlaupa upp til handa og fóta eftir frægðarförina til Ísraels. Hann ræskir sig og segir svo með yfirvegað: „Ég hugsa að við höldum bara okkar striki og okkar plani. Það hefur svosem ekkert breyst. Við höfum verið að stefna á að klára plötu nú í sumar og að halda áfram að taka að okkur verkefni sem eru krefjandi og fjölbreytileg.“

Í lok samtals kemst blaðamaður ekki hjá því að spyrja manninn með gaddagrímuna, trommugimpið sjálft, hvernig það sé svo að geta tekið grímuna niður eftir margar vikur með hana reimaða á andlitið, næstum því upp á hvern einasta dag. „Við erum öll með grímu, á einn eða annan máta,“ svarar Einar. 

„Við erum öll með grímu,“ segir Einar. Gríman sem hann …
„Við erum öll með grímu,“ segir Einar. Gríman sem hann hefur borið síðastliðnar vikur er þó örlítið meira áberandi en flestra annarra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is