Ísland hlaut viðurkenningu fyrir baráttu í jafnréttismálum

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók við viðurkenningunni fyrir hönd Katrínar …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók við viðurkenningunni fyrir hönd Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ísland hlaut í dag viðurkenningu fyrir einarða baráttu fyrir jafnrétti á norrænu viðskiptaráðstefnunni Womenomics í Kaupmannahöfn. Þetta í fyrsta sinn sem land eða þjóð hlýtur slíka viðurkenningu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók við viðurkenningunni fyrir hönd Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hann hélt einnig opnunarávarp á rakarastofuráðstefnu sem haldin var við þetta tækifæri að íslenskri fyrirmynd.

Við verðlaunaafhendinguna þakkaði Guðlaugur Þór frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, og öðrum forystukonum þann árangur sem náðst hefur í jafnréttismálum á Íslandi og sagði þær hafa stuðlað að umbótum á lagaumhverfi og samfélagsinnviðum sem eru grundvöllur þessara framfara.

„Ég bjóst ekki við því þegar ég varð utanríkisráðherra að jafnrétti yrði eitt aðalviðfangsefnið í starfinu en það er mikil eftirspurn eftir samstarfi og ráðgjöf frá Íslandi á þessu sviði. Jafnrétti er sannarlega ein meginforsenda sjálfbærrar þróunar og mikilvægt að halda jafnréttisbaráttunni áfram á alþjóðavettvangi,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars.

Um eitt þúsund manns úr norrænu atvinnulífi sóttu þessa árlegu ráðstefnu um stöðu kvenna í atvinnulífinu en þetta er í sjötta skiptið sem Womenomics ráðstefnan er haldin í Kaupmannahöfn. Dagskráin var fjölbreytt með áherslu á hlut kvenna í atvinnulífinu og hagkerfinu almennt. Meðal annarra verðlaunahafa í ár var belgíska prinsessan Esmeralda sem nýlega skrifaði bók um konur sem hlotið hafa Nóbelsverðlaun auk norrænu athafnakvennanna Evu Berneke, Söru Wimmercranz og Susanne Najafi.

mbl.is