Miðflokksmenn með 251 ræðu og svör

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, bíður þess nú að komast að …
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, bíður þess nú að komast að með sína sjöundu ræðu í annarri umræðu um þriðja orkupakkann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn stigu alls 287 sinnum í pontu í gærkvöldi og nótt til að flytja ræður og svör í tengslum við aðra umræðu um þriðja orkupakkann svonefnda. Umræða um orkupakkann hófst klukkan 17.43 í gærdag og var haldið áfram, með hálftíma hléi, þar til þingfundi var slitið klukkan 5.42 í morgun. Þá hafði umræðan staðið í tólf tíma.

Þingmenn Miðflokksins voru áberandi á mælendaskránni og stigu alls 251 sinni í pontu. Þingmenn annarra flokka stigu 36 sinnum í pontu, þar af Helgi Hrafn ellefu sinnum, forsetar þingsins fjórum sinnum og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins sem líkt og Miðflokkurinn er mótfallinn þriðja orkupakkanum, fimm sinnum.

Eftir kl. hálfellefu í gærkvöldi voru þingmenn Miðflokksins hins vegar svo gott sem einráðir á mælendaskrá er þeir fluttu ræður og fóru jafnvel í andsvör við sjálfa sig.

Málið er þó ekki útrætt, því þegar þingfundi var frestað í morgun voru enn fimm þingmenn á mælendaskrá. Biðu þeir Þorsteinn Sæmundsson, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson þá þess að flytja sína fjórðu ræðu í seinni umræðunni og þeir Bergþór Ólason og Birgir Þórarinsson biðu eftir að komast að með sjöundu ræðu sína.

Það tækifæri ættu þingmennirnir að fá er þing hefst að nýju klukkan 13.30, en þriðji orkupakkinn er þar þriðja mál á dagskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina