Segja vanefndir á nýundirrituðum kjarasamningi

Efling hefur krafist fundar með ríkissáttasemjara og framkvæmdastjória Samtaka atvinnulífsins. …
Efling hefur krafist fundar með ríkissáttasemjara og framkvæmdastjória Samtaka atvinnulífsins. Félagsmenn Eflingar fóru meðal annars í verkföll í vetur. Verkfall í mars. mbl.is/Eggert

Efling hefur krafist fundar með framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Halldóri Benjamín Þorbergssyni, í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna vanefnda á nýundirrituðum kjarasamningi. Óskað er eftir að fundurinn fari fram eftir viku, 28. maí kl. 13. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Málið kemur til vegna hópuppsagnar hótelstjórans Árna Vals Sólonssonar á launakjörum starfsfólks síns umsvifalaust eftir samþykkt kjarasamninganna. Segir í uppsagnarbréfinu að þetta sé „til að lækka launakostnað“ vegna „væntanlegs kostnaðarauka“.

Bréf var sent á Árna Val, sem stýrir CityPark, CityCenter og CapitalInn hótelunum, til að fá skýringar á þessu. Rekstrarfélög Árna Vals tilheyra Samtökum atvinnulífsins, svo þau voru líka beðin um viðbrögð.

Miðstjórn ASÍ lýsti því yfir í kjölfarið að stéttarfélögum væri áskilinn réttur til að rifta kjarasamningum gagnvart þeim atvinnurekendum sem ekki virtu þá sem samið hefur verið um. Þar með væru lögmætar þvingunaraðgerðir á borð við verkföll í spilinu.

„Blaut tuska í andlitið“

„Við semjum í góðri trú, með það að markmiði að bæta kjör félagsmanna okkar,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í tilkynningu. „Þetta er blaut tuska í andlitið, að bregðast við með því að fella niður kjör sem starfsmenn hafa notið. Það er engu líkara en verið sé að refsa félagsmönnum fyrir að hafa samið um launahækkun.“ Þetta er einnig haft eftir honum í tilkynningu. 

Samtök atvinnulífsins hafa nú sent bréf til Eflingar þar sem þau þverneita að þetta séu undanbrögð vegna launahækkana í kjarasamninginum. Engin skýring er gefin á þeim orðum uppsagnarbréfsins, sem starfsmönnum var skipað að skrifa undir á staðnum, að „væntanlegur kostnaðarauki“ væri ástæða uppsagnanna.

„Kóa með verstu sort af kapítalista“

„Þau eru einfaldlega að kóa með verstu sort af kapítalista.“ Þetta er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í tilkynningu. „Þeirri sort sem er til í að setja fólk á strípaðan taxta þegar þau semja um launahækkun, þeirri sort sem reynir að stækka hótelið sitt í leyfisleysi síðasta haust, sem bjó svo illa um byggingarverkamennina að það þurfti að loka framkvæmdunum því þeir voru taldir í lífshættu. Manni sem reyndi að koma í veg fyrir að starfsfólkið hans fengi að kjósa um verkfallið sitt. Manni sem hefur oft stært sig af að borga starfsfólkinu sínu meira en aðrir hótelstjórar, sem er einfaldlega ósatt. Manni sem sagði að hann ætlaði að búa til sitt eigið stéttarfélag fyrir starfsfólkið sitt, því honum fannst Efling ekki nógu gott. Þetta er maðurinn sem SA ganga nú fram fyrir skjöldu til að verja.“ Þetta er einnig haft eftir Sólveigu Önnu í tilkynningu. 

Viðar Þorsteinsson segir allan kjarasamninginn við SA vera í húfi. „Spurningin er hvort samtökin séu að gefa grænt ljós á allsherjar vanefndir á kjarasamningnum sem þau undirrituðu sjálf.“

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. mbl.is/Eggert
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/​Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina