„Þetta er einstakt tækifæri“

Þristar verða til sýnis á Reykjavíkurflugvelli.
Þristar verða til sýnis á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er alveg einstakur viðburður,“ segir flugrekstrarstjórinn Stefán Smári Kristinsson. Nóg er um að vera hjá honum á Reykjavíkurflugvelli en milli klukkan 18 og 20 verða fimm svokallaðar þristavélar , DC-3- eða C-47-flug­vél­ar frá Banda­ríkj­un­um, til sýnis á flugvellinum.

Þrjár vélanna voru komnar á Reykjavíkurflugvöll í gær, ein kom í morgun og síðasta lenti á vellinum fyrir tæpri klukkustund. Stefán segir að von sé á fimm þristum á morgun.

Vélin sem kom í morgun er að sögn Stefáns merkilegust. „Hún heitir That´s All, Brother, en var leiðtogavélin í innrás Bandaríkjanna í Normandí.“ Vélin kom til landsins rétt fyrir miðnætti en gat ekki lent í Reykjavík vegna þess að Reykjavíkurflugvöllur lokar klukkan ellefu.

„Það var ekki hægt að fá undanþágu frá Samgöngustofu,“ segir Stefán.

„Fljúgandi minjagripur“

„Ég fékk þann heiður að fljúga með, ásamt kollegum mínum, frá Keflavík til Reykjavíkur. Það var auðvitað mjög skemmtilegt og ekki eitthvað sem maður gerir á hverjum degi.“

Að sögn Stefáns er vélin, That´s All, Brother, í raun og veru fljúgandi minjagripur. „Hún er merkilegasta flugvél sinnar tegundar sem flýgur enn. Hinar eru allar á söfnum og eru ekki virkar.

Hann segir að menn hafi viljað lenda á Reykjavíkurflugvelli, eins og í gamla daga. „Þetta var leiðin sem þeir fóru yfir hafið í tengslum við innrásina í Normandí og það var vilji til að hafa þetta eins,“ segir Stefán en leiðangurinn er í tilefni þess að í byrjun júní verða 75 ár liðin frá inn­rás Banda­manna í Norm­andi í síðari heims­styrj­öld­inni.

Allar vélarnar eru áratuga gamlar og Þristurinn skipar merkilegan sess …
Allar vélarnar eru áratuga gamlar og Þristurinn skipar merkilegan sess í flugsögu heimsins. mbl.is/Árni Sæberg

Spurður hvers vegna fólk ætti að skella sér á flugvöllinn segir Stefán að viðburðurinn sé einstakur. „Þetta er einstakt tækifæri. Það er sögulegt að sjá svona margar vélar af tegundinni DC-3 samankomnar á einum stað. Fyrir marga verður þetta í eina skiptið á ævinni sem það gerist,“ segir Stefán og bætir við að mikil sál og saga sé í vélunum:

„Áhafnirnar eru fullar af reynsluboltum í fluginu. Fólki gefst tækifæri til að spjalla við þá og heyra þeirra sögur,“ segir Stefán. Óvíst er hvort hægt verði að fara inn í vélarnar en það fer eftir áhöfnum.

mbl.is