„Þetta eru bara góðar umræður“

„Ég vona að umræður haldi áfram og það verði tekin …
„Ég vona að umræður haldi áfram og það verði tekin ákvörðun um að málinu verði vísað aftur í samningaviðræður. Og að við fáum undanþágu eins og við fengum með gasið,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, til hægri. Inga Sæland formaður Flokks fólksins er hans við hlið á myndinni. Þau leggjast gegn samþykkt þriðja orkupakkans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, vísar því á bug að um málþóf sé að ræða á Alþingi um þessar mundir. Hann tók sjö sinnum til máls í gær og Inga Sæland samflokkskona hans 5 sinnum.

„Þetta eru bara góðar umræður um nauðsynlegt mál til að fá á hreint hver niðurstaðan er af þessu máli,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. „Eins og við myndum vilja það færi þetta bara í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir hann.

Guðmundur segir liggja fyrir að umræðurnar muni halda lengi áfram. „Það segir sig sjálft að það verður nóg að ræða næstu daga jafnvel,“ segir hann. Og hvort sú umræða kunni að standa út þingið? „Ef á þarf að halda,“ segir Guðmundur. „Við verðum að fá það á hreint hvaða áhrif þetta hefur á orkumarkað okkar,“ segir hann.

Meirihluti þings er fyrir samþykkt þriðja orkupakkans og því liggur fyrir að hann verði samþykktur. Guðmundur segir það stinga í stúf við stefnu flokkanna. „Enginn af núverandi ríkisstjórnarflokkum vill fara í ESB. Þar af leiðandi finnst mér mjög skrítið að þeir séu að samþykkja að yfirráð yfir raforkunni okkar verði í höndum ESB,“ segir Guðmundur.

„Ég vona að umræður haldi áfram og það verði tekin ákvörðun um að málinu verði vísað aftur í samningaviðræður. Og að við fáum undanþágu eins og við fengum með gasið,“ segir Guðmundur loks.

Þingfundur hefst klukkan 13.30. Orkupakkinn er þriðja mál á dagskrá, þ.e. framhald á annarri umræðu.

Á mælendaskrá eru einvörðungu Miðflokksmenn:

  1. Þorsteinn Sæmundsson, með sína 4. ræðu.
  2. Karl Gauti Hjaltason, með sína 4. ræðu.
  3. Ólafur Ísleifsson, með sína 4. ræðu.
  4. Bergþór Ólason, með sína 7. ræðu.
  5. Birgir Þórarinsson, með sína 7. ræðu.
mbl.is

Bloggað um fréttina