300 íbúðir, verslanir og skrifstofur við Lágmúla

Samkvæmt tillögunni á að rísa 10.360 fermetra bygging við gatnamót …
Samkvæmt tillögunni á að rísa 10.360 fermetra bygging við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar. Teikning

Vinningstillaga fyrir skipulag á lóð á milli Lágmúla og gatnamóta Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar gerir ráð fyrir 4-8 hæða byggingu sem verður samtals 10.360 fermetrar, þar af verslanir á fyrstu tveimur hæðunum, skrifstofur á næstu tveimur hæðum og 300 litlar íbúðir í svokölluðu „co-living“ umhverfi þar fyrir ofan.

Vinningstillagan var kynnt á vef Reykjavíkurborgar í dag, en um er að ræða hluta af verkefni í samkeppni „C40 Reinventing cities“ sem gengur út á grænar þróunarlóðir með sjálfbærni og umhverfisvænni byggð að leiðarljósi.

Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða hugmyndafræði sem hafi ekki mikið verið notuð hér á landi, ef frá eru taldir stúdentagarðar, en sé alltaf að verða vinsælla og vinsælla erlendis. Meðal þess sem hugmyndafræðin gengur út á er að hver íbúi sé með sínar vistarverur, baðherbergi og svefnherbergi, en til viðbótar sé sameiginlegt þvottahús, eldhús og vinnuaðstaða ásamt frístundarrými.

Byggingin séð frá Lágmúla
Byggingin séð frá Lágmúla Teikning

Í vinningstillögunni er svokallaður grænn borði sem er grænt svæði sem teygir sig um alla bygginguna, bæði lárétt og lóðrétt þar sem sameiginlegt svæði er og verður meðal annars í boði að vera með eigin matvælaræktun. Þetta fyrirkomulag hefur verið kallað „co-living“ erlendis, en í íslenskuna vantar lýsandi orð og óskum við hér með eftir hugmyndum frá lesendum.

Edda segir að vinsældir þessa íbúðaforms megi meðal annars rekja til þess að margir búi einir en vilji geta deilt einhverjum þáttum með öðrum, meðal annars upp á félagsskap og ekki síður fyrir hagræði. Hún segir að nú taki við viðræður við vinningsteymið, en keppninni fylgdi rétturinn til að ganga til samninga við borgina. Segir hún að í framhaldinu muni koma í ljós hvernig þessi hugmyndafræði muni þróast hér á landi og hvort verktakar fari að sýna þessu áhuga.

Byggingin er samkvæmt tillögunni öll úr timbri, svokölluðum CLT einingum. Vinningsliðið er samsett af, Basalt Arkitektum, Eflu, Landmótun og Reginn fasteignafélagi.

mbl.is