Ástráður meðal umsækjenda um dómarastöðu

Ástráður Haraldsson.
Ástráður Haraldsson. mbl.is/Styrmir Kári

Ástráður Haraldsson héraðsdómari er einn þeirra sem sóttu um embætti landsréttardómara. Embættið var auglýst laust eftir að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sagði starfi sínu lausu í byrjun mánaðarins vegna aldurs. Ástráður staðfestir þetta við mbl.is, en Kjarninn sagði fyrst frá málinu. Ekki hefur enn verið birtur listi yfir umsækjendur.

Ástráður var einn þeirra sem sóttu um starf dómara við Landsrétt þegar dómstólnum var komið á laggirnar. Var hann einn þeirra sem hæfnisnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu, en Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, breytti þeirri uppröðun og voru fjórir af þessum 15 ekki meðal þeirra sem voru skipaðir. Þeirra á meðal var Ástráður.

Ástráður og Jóhannes Rúnar Jóhannsson fóru síðar í mál við ríkið vegna ákvörðunarinnar og dæmdi Hæstiréttur að með skipuninni hefði verið brotið gegn stjórnsýslulögum. Þeir Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson voru hinir tveir af fjórmenningunum. Eftir að Hæstiréttur dæmdi ríkið til að greiða Ástráði og Jóhannesi miskabætur fóru þeir einnig í mál við ríkið. Er það mál í áfrýjunarferli eftir að þeir unnu málin í héraði.

Síðar sótti Ástráður um stöðu dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur og var skipaður dómari þar.

Eitt af málum sem skipaðir landsréttardómarar höfðu komið að var sent til Mannréttindadómstóls Evrópu og í mars á þessu ári komst dómstóllinn að því að dómararnir hefðu verið ólöglega skipaðir. Íslenska ríkið hefur sent það mál til efri deildar dómstólsins, en enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort málið verði tekið þar fyrir eða ekki.

Í kjölfar ákvörðunar Mannréttindadómstólsins sagði Sigríður af sér sem dómsmálaráðherra og tók Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir við þeim ráðherrastól.

mbl.is