EasyJet fækkar Íslandsferðum

Flugfélagið EasyJet ætlar að fækka ferðum til Íslands í vetur.
Flugfélagið EasyJet ætlar að fækka ferðum til Íslands í vetur. AFP

Flugfélagið EasyJet hefur fækkað ferðum sínum til Keflavíkur. Frá þessu er greint á ferðavefnum Túrista, sem segir stjórnendur félagsins skrifa ákvörðunina á dýrtíðina á Íslandi. British Airways og Wizz Air eru aftur á móti sögð fjölga ferðum frá London til Íslands í vetur. 

Túristi segir EasyJet hafa dregið úr flugi til Keflavíkurflugvallar þrátt fyrir brotthvarf WOW af markaðnum og að fyrirhugað sé að félagið fækki ferðum enn frekar á næstunni. Þannig muni áætlunarferðum félagsins til Keflavíkur fækka um 17% í janúar og um 10% í febrúar, eða um rúmlega fimmtíu ferðir samtals.

Munar mestu um að félagið ætlar ekki að fljúga hingað frá London Stansted, auk þess sem ekki er hægt að bóka neitt flug til Íslands í vetur með flugfélaginu frá Basel eða Genf. Túristi segir þær flugleiðir þó stundum bætast við við leiðakerfi EasyJet með litlum fyrirvara.

„Við höfum dregið úr framboði vegna minnkandi eftirspurnar sem skrifast á hækkandi verðlag á Íslandi,” hefur Túristi eftir Andy Cockburn, talsmanni  EasyJet, um ástæður samdráttarins. Ísland sé þó enn vinsæll áfangastaður hjá viðskiptavinunum EasyJet, en félagið einbeiti sér að flugleiðum þar sem eftirspurnin er mest.

Túristi segir það hins vegar vega upp á móti niðurskurðinum í Bretlandsflugi EasyJet og brotthvarfi WOW air að Wizz Air og British Airways fljúgi hingað oftar. Wizz Air muni fljúga daglega hingað frá Luton-flugvelli og þá sjái British Airways einnig tækifæri í auknu Íslandsflugi miðað við þann fjölda ferða sem nú sé hægt að bóka á heimasíðu félagsins.

EasyJet hefur undanfarið verið umsvifameira en Icelandair í flugi til London, þegar litið er til fjölda ferða. Samdrátturinn nú verður hins vegar til þess að Icelandair verður það flugfélag sem oftast flýgur til Lundúna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert