„Enginn spurði hvernig mér liði“

Um 70% skjólstæðinga Stígamóta urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi í barnæsku …
Um 70% skjólstæðinga Stígamóta urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi í barnæsku en leita sér fyrst hjálpar þegar þeir verða fullorðnir. mbl.is/Hari

„Ég vildi óska að einhver hefði spurt mig hvernig mér liði, hvort allt væri í lagi eða athugaði með mig, en það gerðist aldrei. Ég vildi óska að einhver hefði hringt í lögregluna eða barnavernd, en það gerðist aldrei.“

Þetta er lýsing stúlku á ofbeldi sem hún varð fyrir á heimili sínu. Hún er ein þeirra rúmlega 13 þúsund barna á Íslandi sem hafa orðið fyrir líkamlegu og eða kynferðislegu ofbeldi áður en barnæskunni lýkur, fyrir 18 ára aldur.

„Þegar ég var lítil bjó ég í blokk. Amma vinkonu minnar bjó á hæðinni fyrir neðan okkur. Ég fór oft þangað til að leika við vinkonu mína þegar hún var í pössun hjá ömmu sinni. Þegar ég var þar, heyrði ég hversu hljóðbært var milli íbúða í blokkinni, ég gat heyrt hlátur, tal og hljóð úr sjónvarpinu sem barst frá íbúðinni sem ég bjó í. Ef hinar íbúðirnar í blokkinni gátu heyrt í sjónvarpinu úr minni íbúð, þá gátu þau örugglega heyrt mig gráta þegar mamma sló mig. Þau gátu örugglega heyrt þegar hún öskraði á mig. Þau gátu örugglega heyrt hvað ég grét og var hrædd þetta skipti sem hún sparkaði í mig aftur og aftur á ganginum í sameigninni. Ég bjó í þessari blokk frá því að ég fæddist og þar til ég flutti að heiman. Ég þekkti alla nágrannana, lék mér við börnin þeirra og var send til þeirra til að fá lánaða mjólk,“ segir þessi stúlka sem hefur hugrekki til þess að rjúfa þögnina og um leið segja frá því að líf hennar væri öðruvísi ef einhver fullorðinn hefði haft kjark og þekkingu til þess að grípa inn í og gera eitthvað í því að stöðva ofbeldið á heimilinu.

Ofbeldi er ein stærsta ógnin sem börn á Íslandi standa frammi fyrir

Hjördís Eva Þórðardóttir, sem stýrir innanlandsstarfi UNICEF, segir að ofbeldi sé ein stærsta ógnin sem börn á Íslandi standa frammi fyrir. Tæplega eitt af hverjum fimm börnum hefur orðið fyrir ofbeldi fyrir 18 ára aldur en alls eru 80.383 börn búsett á Íslandi og miðað við þann fjölda eru það rúmlega 13 þúsund börn.

Hjördís segir að í tölunum séu einnig börn sem verða vitni að heimilisofbeldi því rannsóknir sýni að afleiðingar þess að verða vitni að ofbeldi á heimilinu séu alveg jafn slæmar og að verða beint fyrir ofbeldinu.

Hjördís Eva Þórðardóttir er teymisstjóri innanlandsstarfs UNICEF á Íslandi.
Hjördís Eva Þórðardóttir er teymisstjóri innanlandsstarfs UNICEF á Íslandi.

16,4% barna verða fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn, sum hver daglega. Hér er ekki meðtalin vanræksla, andlegt ofbeldi, rafrænt ofbeldi eða einelti, en þá væri þessi tala mun hærri. Kynferðisofbeldi gegn drengjum hefur tvöfaldast á síðustu 6 árum, 9% stúlkna í 10. bekk hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu jafnaldra og 6% drengja verða fyrir líkamlegu ofbeldi á heimili sínu. Um 70% skjólstæðinga Stígamóta urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi í barnæsku en leita sér fyrst hjálpar þegar þeir verða fullorðnir, segir Hjördís.

„Við sem samfélag erum ekki nægjanlega meðvituð um hvað það er sem við eigum að gera til þess að standa með barni þannig að barnið njóti vafans. Við vitum ekki hvert og hvort við eigum að láta vita. Þess vegna fer UNICEF á Íslandi í þessa herferð – að leita til alls samfélagsins um að taka þátt og mynda með okkur breiðfylkingu fyrir börn. Eins konar #Me too-byltingu fyrir börn þar sem fólk skráir sig og heitir því að standa með börnum. Að binda endi á þann feluleik sem einkennir þennan málaflokk,“ segir Hjördís.

Hún segir að allir þeir sem skrái sig fái skriflegar leiðbeiningar frá UNICEF um hvað þeir geti gert og brugðist við í ólíkum aðstæðum þegar þá grunar að barn búi við ofbeldi. Kynningarmyndband verður sent í alla skóla landsins en þar mun Ævar vísindamaður fjalla um það við börn hversu mikilvægt það er að segja einhverjum fullorðnum, sem þau treysta, frá, ef þau hafa orðið vitni að eða orðið fyrir ofbeldi. Eins hefur UNICEF sent erindi til allra sveitarstjórna á landinu þar sem sveitarfélögin eru beðin um að óska eftir tölfræðiskýrslum frá Rannsóknum og greiningu um ofbeldi gagnvart börnum en í skýrslum sem sveitarfélögin fá árlega eru ekki tölur um ofbeldi þannig að þó svo sveitarfélögin fylgist mjög vel með áhættuhegðun barna og ungmenna vantar upplýsingar um ofbeldi sem sami hópur verður fyrir. 

Nýta upplýsingar til að styðja börn og finna þau sem þurfa hjálp

„Með því að keyra þessar upplýsingar saman við tölur frá barnavernd geta sveitarfélögin séð hversu hátt hlutfall barna sem eru með þessa hræðilegu reynslu fá ekki þá aðstoð sem þau þurfa á að halda. Hversu gott kerfið okkar raunverulega er. Hægt er að bera saman fjölda barna og málaflokka þar sem börn koma inn í barnaverndina, svo sem vegna ofbeldis eða vanrækslu eða annars. Þessar upplýsingar geta sveitarfélögin nýtt sér til þess að styðja börn og finna þau sem þurfa á hjálp að halda.

Eins hvetjum við sveitarfélögin til þess að búa til samhæft verklag vegna gruns um að barni líði ekki nógu vel eða verði fyrir vanrækslu eða ofbeldi.Við bendum þeim á verklag sem Garðabær útbjó þar sem allir vinnustaðir sem koma að börnum tóku þátt í að gera grafískt skema um ólík tilvik sem geta komið upp í starfi með börnum. Allir starfsmenn á öllum þessum vinnustöðum fylgja sama verklaginu. Þetta vantar víða annars staðar og tilkynningaskyldan er ekki nógu skýr eða vel fylgt eftir hjá öllum sveitarfélögum. Þetta sjáum við á leikskólastiginu en aðeins 2,4% af tilkynningum um ofbeldi, vanrækslu eða áhyggjur af velferð barna koma frá leikskólunum. Á þeim tíma sem börn eru líklegri en á mörgum öðrum æviskeiðum til að verða fyrir vanrækslu eða ofbeldi, álagið á fjölskyldur er oft mikið á þessum aldri og börn eru ekki fær um að segja frá og greina það sem þau lenda í.

Við hvetjum ríkið til þess að stofna ofbeldisvarnaráð sem taki að sér að samræma og vakta tölfræði um tíðni ofbeldis gegn börnum. Samræma tölfræðina og bjóða upp á aðgerðir og tryggja að alltaf sé í boði viðeigandi fræðsluefni. Þetta er líka mikilvægt í baráttunni gegn klámvæðingu og óæskilegri kynferðislegri hegðun af hálfu barna. Hvernig eigi að bregðast við þegar barn brýtur gegn öðru barni því við erum að sjá það með aukinni klámnotkun að það er að verða algengara,“ segir Hjördís.

Ofbeldisvarnaráð myndi einnig annast rannsóknir á ofbeldi gagnvart börnum á Íslandi en þetta viðfangsefni hefur verið mjög lítið rannsakað, svo sem birtingarmyndir ofbeldis, orsakir og afleiðingar, segir hún.

Spurð um væntingar UNICEF á Íslandi til átaksins segir Hjördís að UNICEF hafi aldrei áður upplifað jafn mikla hluttekningu og vilja til að taka á málefnum sem eru aðkallandi þegar kemur að börnum og hjá núverandi félags- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, sem og öðrum sem koma að málefnum barna í ríkisstjórninni. Félags- og barnamálaráðherra hefur sýnt þeim málefnum sem liggja nærri hjarta UNICEF, málefnum sem snúast um viðkvæmustu börnin á Íslandi, fordæmalausa hluttekningu.

„Við höfum fulla trú á að ríkið taki tillit til þessara óska um stofnun ofbeldisvarnaráðs sem hluta af forvarnarstarfi. Við hjá UNICEF höfum barist fyrir stofnun þess frá 2013 og munum ekki hætta að tala fyrir miðlægum vettvangi sem vaktar tíðni ofbeldis í samfélaginu okkar, stýrir og samræmir fræðslu og forvarnarefni til fagstétta, barna og almennings. Það minnsta sem við getum gert fyrir þessi börn er að horfast í augu við þann sársauka og aðstæður sem þessi börn búa við. Rjúfa þennan feluleik. Smánin í kringum þennan málaflokk er í raun meiri en um nokkurn annan málaflokk. Þetta birtist meðal annars í því að tölfræðin er ekki gerð opinber, hún er ekki vöktuð og þetta er málefni sem er ekki mikið rætt. Við hjá UNICEF fundum áþreifanlega fyrir því þegar við vorum að leita eftir stuðningi fyrirtækja, til að tryggja að boðskapur átaksins og málefnið kæmist sem víðast, var Kvika eina fyrirtækið sem var reiðubúið að standa með okkur, fyrir það erum við þeim ómetanlega þakklát. Feluleikurinn er svo víða og við sem samfélag verðum að búa til #Me too-byltingu fyrir þessi börn því þau hafa ekki sjálf þá rödd,“ segir Hjördís.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á undanförnum árum hefur orðið töluverð aukning á fjölda barna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu annarra barna. Hjá drengjum hefur hlutfallið tvöfaldast frá árinu 2012 og mælist nú 4%. Umtalsverð aukning mælist einnig hjá stúlkum en árið 2012 sögðust 5,1% stúlkna hafa orðið fyrir slíku ofbeldi en nú er hlutfallið komið í 8%.

Hjördís segir að þetta sé grafalvarleg staða bæði fyrir stúlkur og drengi og megi leiða líkur að því að klámvæðing og skortur á samtali um heilbrigt og eðlilegt kynlíf hafi hér mikil áhrif. Hún bendir á að rannsóknir sýni að drengir og stúlkur leita oft á náðir kláms varðandi kynfræðslu í stað þess að fá þessa fræðslu annaðhvort hjá foreldrum eða skólum. Viðmið þeirra séu því oft brengluð af ranghugmyndum á þessu sviði.

Drengir fá ekki þá hjálp sem þeir þurfa á að halda

Að sögn Hjördísar skortir mjög á að gerðar séu rannsóknir á ofbeldi gagnvart börnum á Íslandi. Þar á meðal kynferðislegu ofbeldi. Samkvæmt tölfræði sem Rannsóknir og greining unnu fyrir UNICEF hafa 4% stúlkna og drengja orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu fullorðins einstaklings. Hlutfall stúlkna hefur ekki breyst frá árinu 2012 en hlutfall drengja hefur rúmlega tvöfaldast. Það er því jafn algengt að drengir í 9. og 10. bekk verði fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu fullorðinna og stúlkur.

Spurð út í þetta hlutfall segir Hjördís erfitt að svara því hvað valdi þessari miklu aukningu meðal drengja. „Við getum velt fyrir okkur hvort smánin í kringum ofbeldið hafi verið svo mikil hér áður að það skýri hversu fáir drengir greindu frá ofbeldi hér áður. Þetta er vonandi að breytast með minni feluleik varðandi kynferðislega misnotkun drengja og sennilega orðið auðveldara fyrir þá að greina frá ofbeldinu í spurningakönnun sem þessari. Það er mikilvægt að rannsaka þetta frekar og vonandi verður það gert. Það sem er verra er að þessir drengir eru ekki að skila sér inn í barnaverndarkerfið. Þeir eru að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu fullorðinna í sama mæli og stúlkur en eru ekki að fá hjálpina sem þeir þurfa svo sannarlega á að halda,“ segir Hjördís.

UNICEF á Íslandi er að setja af stað eins konar …
UNICEF á Íslandi er að setja af stað eins konar #Me too-byltingu fyrir börn þar sem fólk skráir sig og heitir því að standa með börnum. mbl.is

Stígamót tóku saman gögn fyrir UNICEF á Íslandi um einstaklinga sem leituðu til samtakanna í fyrsta sinn á árunum 2016-2018 og höfðu verið beittir kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Flestir umræddra einstaklinga voru á aldrinum 18-39 ára (eða tæp 70%) en ofbeldið hófst hins vegar hjá flestum þessara einstaklinga (eða 95%) þegar þeir voru á aldrinum 5-17 ára.

Miklu fleiri reyna sjálfsvíg

Þegar hóparnir tveir (einstaklingar sem urðu fyrir kynferðisofbeldi í fyrsta sinn fyrir 18 ára aldur og eftir) eru bornir saman með tilliti til sjálfsvígstilrauna kemur mikill munur fram á milli hópanna. Einstaklingur sem verður fyrst fyrir kynferðislegu ofbeldi sem barn er mun líklegri til að hafa reynt að svipta sig lífi en fullorðinn einstaklingur.

Tæplega tvöfalt fleiri einstaklingar sem urðu fyrir kynferðisofbeldi í æsku reyndust hafa reynt að enda sitt eigið líf og reyndist munurinn milli hópanna tveggja marktækur.

Skoðað var hvort marktækur munur væri á neyslu eða athöfnum sem væru afleiðingar kynferðisofbeldis og skertu lífsgæði/trufluðu daglegt líf þeirra sem höfðu verið beitt kynferðisofbeldi í fyrsta skipti í barnæsku og hjá þeim sem höfðu verið beitt ofbeldinu í fyrsta skipti þegar þau voru orðin fullorðin. Marktækur munur reyndist milli hópanna þegar kom að neyslu áfengis, fíkniefna, matar, kynlífs og fjárhættuspila/tölvuleikja.

Samkvæmt upplýsingum frá UNICEF búa fjölmörg börn við heimilisofbeldi eða líkamlegt ofbeldi á heimili sínu. Ýmist verða börn vitni að ofbeldinu eða verða fyrir því sjálf. Afleiðingarnar af því að barn verði fyrir heimilisofbeldi eru gífurlegar og hafa rannsóknir sýnt fram á að það skipti ekki máli hvort barnið verði vitni að ofbeldinu eða verði fyrir því sjálft, afleiðingarnar eru jafnslæmar.

mbl.is/G.Rúnar

Samkvæmt tölum Rannsókna og greiningar hafa um 6% drengja og 5% stúlkna orðið vitni að líkamlegu ofbeldi á heimili sínu.  Það er tæplega 2% aukning fyrir drengi en hlutfallið minnkar örlítið fyrir stúlkur.

Það var búið að brjóta mig niður heima

„Mín fyrsta minning af ofbeldi af höndum móður minnar var þegar ég var um það bil 4-5 ára. Hún hafði hent mér í baðkarið heima og sprautaði á mig köldu vatni með sturtuhausnum. Ástæðan var að ég hafði pissað á mig. Mér var sagt frá öðru atviki sem var svipað, aftur fleygt í bað og sprautað á mig köldu vatni en ég man ekki eftir því. Var sagt að pabbi hefði komið heim og rifið mig úr baðinu. Þarna var ég um tveim árum eldri. Eitt sinn var ég kýld svo að sá á mér. Þá var ég orðin 10 ára. Þegar ég var komin á unglingsár var ofbeldi næstum vikulegur viðburður. Man eftir að hafa verið lamin með spýtu úr rúminu sem ég fékk í fermingargjöf og átti eftir að setja saman.

Þegar ég var barn þá voru amma og afi minn vitni að því hvað gerðist. Veit ekki hvort einhver hafi gert eitthvað en efast um það þar sem þetta fékk að halda áfram. Pabbi vissi að sjálfsögðu af næsta tilviki en ég veit ekki til þess að eitthvað hafi verið gert. Þegar ég var kýld var mágur pabba vitni að því. Þegar ég var unglingur var ofbeldið orðin almenn vitneskja í skólanum milli krakkanna. Ég veit að einhverjir kennarar vissu af þessu líka. En enginn gerði neitt.

Það sem ég áttaði mig ekki á fyrr en mörgum árum seinna þegar ég byrjaði að vinna úr þessu er að móðir mín beitti mig líka miklu andlegu ofbeldi. Ég var aldrei nóg. Ég var aumingi fyrir að pissa í buxurnar. Ég grét við minnsta tilefni, og er það engin furða miðað við framkomuna við mig. En ég var aumingi og grenjuskjóða. Ég var sjálfselsk og hugsaði bara um sjálfa mig. Sem endaði auðvitað í því að ég hætti að setja sjálfa mig í fyrsta sætið og hugsaði um tilfinningar annarra áður en ég spáði í mínar eigin. Ofan á þetta varð ég fyrir einelti í skólanum, enda var ég gott skotmark. Það var búið að brjóta mig niður heima. Ég pissaði undir og vegna þess að ég varð svo smeyk við að láta heyra í mér, í skólanum þorði ég ekki að biðja um að fara á klósettið og pissaði á mig í skólanum. Það var ekki fyrr en ég var orðin fullorðin og fór að vinna úr þessu öllu saman sem ég hætti að pissa í rúmið. Ég var aumingi og auli og varla þess virði að hugsa um fyrir að pissa í rúmið en svo kom í ljós að ástæðan fyrir því var af því að mér var talin trú um að ég væri aumingi og einskins virði. Oft hugsa ég til þess hvernig lífið hefði getað orðið ef einhver hefði bara gert eitthvað! Jú mamma beitti mig ofbeldi en pabbi stóð bara hjá. Hann er alveg jafn sekur og hún var þegar þau bjuggu enn þá saman,“ segir þolandi heimilisofbeldis.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Í dag getur fólk …
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Í dag getur fólk undir átak gegn ofbeldi á vef UNICEF á Íslandi.

Hjördís segir að með aukinni áverkni lögreglu og barnaverndar þegar kemur að heimilisofbeldi séum við að fá betri upplýsingar um ofbeldið en það vanti upp á eftirfylgdina þegar kemur að börnum. Í dag er haft samband við foreldri af hálfu barnaverndar og lögreglu og það oft sett í hendur þess að taka ákvörðun um aðstoð fyrir barnið. 

„Við teljum að þetta sé ekki nóg heldur verður að tryggja að úrræði séu í boði á forsendum barnanna. Allt of oft er gert ráð fyrir því í kerfinu að foreldrarnir séu best til þess fallnir að taka ákvarðanir fyrir hönd barna sinna. Það er því miður ekki alltaf þannig og við þurfum að vera vakandi fyrir því að svo sé í tilfelli sumra barna,“ segir Hjördís.

„Höfum við hugrekki til að standa með börnum sem þurfa á aðstoð að halda? “ spyr Hjördís og segir að UNICEF muni aldrei hætta að tala gegn ofbeldi gagnvart börnum, það er loforð sem UNICEF gefur öllum börnum. UNICEF mun alltaf berjast fyrir því að börn njóti vafans og að réttur þeirra sé sá sami hvert sem barnið er.

Hún segir að það minnsta sem við sem samfélag getum gert fyrir börn á Íslandi er að skrá okkur og vera með í þessari breiðfylkingu sem ætlar að taka þátt í átakinu með UNICEF  að lyfta hulunni af þessu samfélagsmeini og stöðva feluleik sem bitnar alltaf á þeim sem minnst mega sig – börnum.

Að samfélagið allt taki skýra afstöðu gegn ofbeldi. Þótt tilkynningum til barnaverndarnefnda hafi fjölgað á síðustu árum vantar enn töluvert upp á að allir hópar samfélagsins láti rétta aðila vita ef áhyggjur vakna af velferð barns. Börn reyna oft margsinnis að segja frá ofbeldi áður en nokkuð er gert. Sum þeirra deila reynslu sinni aldrei með neinum. Að sama skapi sýna fjölmörg dæmi að almenningur (t.d. nágrannar, ættingjar, kennarar, vegfarendur) bregst oft ekki við þegar grunur leikur á ofbeldi. Að þurfa að burðast með slíka reynslu og sársauka hefur alvarlegar afleiðingar á barn til frambúðar og við þurfum að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að nokkurt barn sé í þeirri stöðu,“ segir teymisstjóri innanlandsstarfs UNICEF á Íslandi, Hjördís Eva Þórðardóttir.

Þú getur skrifað undir HÉR 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert