Gæti komið upp „réttarfarsklessa“

Grímur Sigurðsson, lögmaður Isavia.
Grímur Sigurðsson, lögmaður Isavia. mbl.is/Eggert

Grímur Sigurðsson, lögmaður Isavia, fer fram á að aðfararbeiðni flugvélaleigufyrirtækisins ALC gegn Isavia verði vísað frá dómi, en munnlegur málflutningur í öðru aðfararbeiðnamáli ALC fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Sagði Grímur að upp gæti komið sú staða að Landsréttur komist að einni niðurstöðu í kærumálinu og héraðsdómur að allt annarri niðurstöðu í seinna málinu sem er nú til umfjöllunar. Væri þá komin upp eins konar „réttarfarsklessa“.

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, hafði í málflutningi sínum sagt að málið núna væri allt annað mál með öðru sakarefni þar sem ALC hefði þegar greitt upp skuld félagsins TF-GPA, vélarinnar sem er kyrrsett, við Isavia. Grímur sagði þetta hins vegar af og frá. Málin væru í raun sama málið, með sama sakarefni, sömu aðilum og sömu dómkröfum. Samkvæmt lögum um einkamál væri því um sama málið að ræða og því bæri að vísa seinna málinu frá á grundvelli Litis pendens, þ.e. að ekki megi reka sama málið á sama tíma fyrir dómstólum.

Grímur sagði að þó að málavextir í þessu máli og fyrra málinu séu ekki nákvæmlega þeir sömu, í ljósi þess að ALC hefði millifært 87 milljónir á Isavia, þá gerði það málið ekki að nýju máli. Dómkröfur og sakarefni væru eftir sem áður þau sömu.

Vísaði hann til þess að málið væri nú fyrir Landsrétti, en greinargerðum hefur verið skilað í því máli og beðið er eftir úrskurði dómstólsins. Sagði hann að með greinargerðunum væru upplýsingar um greiðslurnar og að Landsréttur þyrfti að meta þær inn í málið.

Vegna þessa sagði hann að héraðsdómur þyrfti að vísa síðara málinu frá. „Ef það er ekki gert kemur upp aðstaða sem er óhugsandi að eigi að geta komið upp,“ sagði Grímur. Benti hann á að ALC hefði ekki kært niðurstöðu héraðsdóms í fyrra málinu. Því gæti niðurstaða Landsréttar ekki verið að ógilda úrskurð héraðsdóms, þar sem kyrrsetningin var staðfest, heldur aðeins að vísa málinu frá og þá yrði úrskurður héraðsdóms í gildi, eða þá að breyta forsendum varðandi hvaða tryggingar mættu vera fyrir skuldinni. Sagði Grímur því ljóst að fyrri úrskurðurinn muni alltaf standa.

Ef héraðsdómur kemst núna að þeirri niðurstöðu að lyfta kyrrsetningunni er því komin upp staða þar sem héraðsdómur væri í andstöðu við Landsrétt í tveimur málum sem væru í raun sama málið og um sömu flugvélina. Kyrrsetningin myndi standa í Landsrétti en væri hafnað í héraði.

Af þessum sökum sagði hann ljóst að vísa yrði málinu sem nú er til umfjöllunar í héraði frá og bíða niðurstöðu Landsréttar og eftir atvikum Hæstaréttar. „Það er ekki hægt að hafa mörg mál í einu,“ sagði hann og bætti við að lokum að ALC yrði að bera ábyrgð á því að hafa komið málinu í þennan búning.

mbl.is